Erlent

Bálför Prince fór fram í kyrrþey

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bálför tónlistarmannsins Prince fór fram í gær í kyrrþey. Viðstaddir voru hans nánustu ættingjar og vinir.

Dánarorsök er enn ókunn og niðurstöður krufningar sem fór fram á föstudag munu ekki liggja fyrir á næstunni. Prince, 57 ára að aldri, fannst látinn á heimili sínu í Paisley Park í Minnesota-ríki Bandaríkjanna í síðustu viku.

Yfirvöld segja að engin merki um meiðsli hafi fundist á líkama Prince og ekkert þykir benda til þess að hann hafi framið sjálfsmorð.

Meðal þeirra sem voru viðstödd bálförina voru tónlistarmenn sem starfað hafa með Prince í gegnum tíðina ásamt systur Prince, Tyka Nelson.

Prince var margverðlaunaður tónlistarmaður. Auk fyrrgreindra óskarsverðlauna vann hann alls til sjö Grammy-verðlauna en hann var tilnefndur 32 sinnum.

Þekktasta verk hans er hinsvegar Purple Rain sem kom út árið 1984 ásamt samnefndri mynd. Hlaut Prince óskarsverðlaunin fyrir tónlistina í þeirri mynd auk þess sem að titillag plötunnar var útnefnt besta lag níunda áratugarins af tónlistarvefnum Pitchfork.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×