Sumir tengja hana við Heilsuhelgar Mörthu Ernst á meðan aðrir tengja hana við hlaup. Einhverjir jóga og einhverjir sjúkraþjálfun. Hver svo sem tengingin er má telja líklegt að allir sem hafa heyrt eða þekkja til Mörthu Ernst tengja hana við heilbrigðan lífstíl. Enda er Martha lærð í sjúkraþjálfun, hómópatíu, höfuðbeina- og spjaldhryggjameðferðum, innri líffæralosun og sem jógakennari. Til viðbótar er hún hlaupaþjálfari og án efa þekktasta hlaupakona landsins. Martha þjálfar bæði almenningsskokk og afrekshlaupara hjá ÍR og í kaffispjalli helgarinnar gefur hún okkur góð ráð fyrir byrjendur.
Í kaffispjalli helgarinnar spyrjum við alltaf hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um helstu verkefni og skipulagið.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna oftast á bilinu sjö til hálfátta.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég reyni að muna eftir því að þakka fyrir daginn sem framundan er og senda ljós á daginn og lífið.
Mér þykir líka mjög gott að senda ljós og góða orku á allt fólkið mitt og þá sem ég veit að eru að fást við erfið verkefni.
Ég fæ mér góðan, grænan drykk, fullt af vítamínum og góða omega fiskiolíu og svo er ómissandi fyrir mig að fá mér lífræna, dökka súkkulaðið mitt frá rapunzel.“
Góð ráð fyrir byrjendur
Hvaða ráð myndir þú gefa fólki sem hefur áhuga á að byrja að skokka/hlaupa en veit ekki alveg hvernig það á að byrja?
1. ÞESSI MANTRA Á ALLTAF VIÐ: MINNA ER BETRA EN MEIRA!
Flestum hættir til að byrja alltof skart sem gæti gengið í smá tíma en svo segir líkaminn alltof oft STOPP og við höldum þá að hlaup séu ekki fyrir okkur.
2. Ef þú hefur ekki hlaupið frá því þú varst barn eða unglingur þá er mjög gott að byrja að ganga og setja inn smá skokk, til dæmis 2-3 ljósastaura fjórum sinnum í hverjum göngutúr. Þetta er gott að gera kannski þrisvar sinnum í viku til að byrja með.
Gera þetta í 6-8 vikur og lengja alltaf aðeins skokkhlutann og færa sig upp í fjórum sinnum í viku.
3. Finna sér þjálfara og/eða skokk/hreyfihóp þar sem haldið er vel utan um byrjendur og skynsemin er í fyrirrúmi.
4. Fara til sjúkraþjálfara og fá nokkrar styrktaræfingar og teygjur.
5. HLUSTA Á LÍKAMANN OG BAKKA ÚT EÐA FÁ AÐSTOÐ EF EITTHVAÐ KEMUR UPP Á.
6. EKKI nota bólgueyðandi lyf til halda áfram ef líkaminn er að kvarta. Hann kvartar ekki að óþörfu. Þú þarft að komast að því af hverju hann kvartar.
Kannski þarftu að minnka álagið, styrkja, teygja, drekka meira vatn, taka steinefni eða eitthvað annað. Ef þú tekur verkjalyf og bólgueyðandi þá ertu að segja líkamanum að þegja og til lengri tíma litið þá kannski þarftu að hætta að hlaupa.
7. Gefðu þér GÓÐAN tíma til að aðlaga líkamann að álaginu. GÓÐIR HLUTIR GERAST HÆGT...sorrý Stína þetta er bara svona.
8. Gangi þér vel
Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
Eins og alltaf að hlaupa, iðka yoga og hef verið sérlega dugleg við armbeygjurnar en ég hef verið í ástar-hatur samband við þær undanfarnar vikur.
Smá vinna hér og þar og þjálfa.
Vera með fjölskyldunni og hitta barnabörnin sem eru mestu gleðigjafarnir í lífinu.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Mikið skipulagt kaos í kringum mig.
Þess vegna finnst mér mjög gott að skrifa niður það sem ég ætla að gera og þá minnka ég stressið í hausnum á mér að ég gæti gleymt þessu eða hinu.
Það er sem sagt mikið af miðum og sneplum í vösunum mínum, í töskunum mínum, á borðinu mínu og út um allt í kringum mig.
Annars nota ég líka mjög mikið jógaöndun til að róa hugann þegar hann er á fullu að reyna að muna eftir öllu.
Öndun er lykillinn að rónni og án meðvitaðarar öndunar veit ég ekki hvar ég væri.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Á milli hálfellefu og hálftólf.“