Íslenski boltinn

KV kom til baka og vann Ólsara í vesturbænum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
KV-menn unnu góðan sigur á heimavelli sínum í kvöld.
KV-menn unnu góðan sigur á heimavelli sínum í kvöld. Vísir/Daníel
KV vann góðan sigur á Víkingum úr Ólafsvík, 2-1, í riðli 3 í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld en leikurinn fór fram utandyra á gervigrasi KR í vesturbænum þar sem KV spilar heimaleiki sína.

Markalaust var í hálfleik en Spánverjinn SamuelJímenez kom gestunum úr Ólafsvík yfir, 1-0, með marki á 69. mínútu.

Ólsarar voru ekki lengi með forystuna því varnarmaðurinn Kristinn Jens Bjartmarsson, sem kom til KV frá Víkingi Reykjavík í vetur, jafnaði metin, 1-1, á 75. mínútu.

Það var svo sex mínútum síðar að Garðar Ingi Leifsson, sonur knattspyrnuþjálfarans og körfuboltadómarans Leifs Sigfinns Garðarssonar, skoraði sigurmarkið fyrir KV, 2-1.

Bæði lið leika í 1. deild í sumar en KV vann sér inn sæti þar í fyrsta skipti í níu ára sögu félagsins síðasta sumar. Leikið var í kvöld á vellinum sem mikið hefur verið í fréttum undanfarið en óvíst var hvort KV fengi leyfi til að spila í 1. deild.

KV komst með sigrinum upp fyrir Ólsara í fimmta sæti riðilsins en liðið er með sjö stig eftir sex leiki. Ólasrar eru sæti neðar með stigi minna eftir jafnmarga leiki.


Tengdar fréttir

Reglunum verður ekki breytt fyrir KV

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, ræddi málefni KV í kvöldfréttum Stöðvar tvö en enn er mikil óvissa um hvort Knattspyrnufélag Vesturbæjar fái hreinlega þátttökuleyfi í 1. deild karla í fótbolta í sumar.

Páll: Kæmi mikið á óvart ef við myndum spila ellefu leiki í Egilshöllinni

Knattspyrnufélag Vesturbæjar fékk í gær þátttökuleyfi í 1. deild karla í sumar en óvissa var um hvort félagið uppfyllti kröfur leyfiskerfis KSÍ eins og um unglingastarf og heimavöll. "Þetta er vægast satt mikill léttir. Nú get ég farið að eyða púðrinu að vinna í liðinu,“ sagði Páll Kristjánsson, annar af þjálfurum KV-liðsins, í samtali við Fréttablaðið í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×