Innlent

Fjór­tán stöðvaðir fyrir að aka undir á­hrifum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mikið var um útköll vegna hávaða í heimahúsum í nótt.
Mikið var um útköll vegna hávaða í heimahúsum í nótt. Vísir/Vilhelm

Mikið var um útköll vegna hávaða í heimahúsum í nótt og mikið var að gera hjá lögreglu. Þá voru fjórtán ökumenn stöðvaðir vegna ölvunar og/eða fíkniefnaaksturs. Þar á meðal var ökumaður handtekinn eftir að hafa ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu en hann var ölvaður við akstur og hafði hann brotið ýmis önnur umferðarlög.

Ekið var á níu ára gamla stúlku á reiðhjóli í Hlíðahverfi. Hún hlaut minni háttar meiðsl og fékk hún að fara heim að skoðun lokinni. Þá varð annað umferðaróhapp í Grafarholti en ökumaður er grunaður um ölvun við akstur ásamt því að hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Ökumaður var stöðvaður við of hraðan akstur á Reykjanesbraut en hann var á 143 km/klst. þar sem hámarkshraðinn er 90 km/klst.

Veitingastaður í miðbænum gerðist brotlegur á samkomubanni þar sem of margir gestir voru inni á staðnum í gær og eiga eigendur staðarins von á kæru vegna brotsins. Þá var aðili handtekinn eftir að hafa haft í hótunum við lögreglumenn og var hann vistaður í fangaklefa.

Tilkynnt var um rúðubrot í skóla í Kópavogi og reyndist gerandi ungur að árum. Málið var afgreitt með aðkomu forráðamanna og Barnaverndar. Þá var maður handtekinn vegna líkamsárásar, húsbrots og eignaspjalla í Kópavogi og var hann í kjölfarið vistaður í fangaklefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×