Kafarar á vegum lögreglunnar eru að störfum í Hafnarfjarðarhöfn þessa stundina. Skipulögð leit að Birnu Brjánsdóttur, sem saknað hefur verið frá því á laugardag, er þó ekki í gangi að svo stöddu en henni var hætt í gærkvöld þar sem engar nýjar vísbendingar höfðu borist í málinu.
Greint var frá því í dag að fundist hefði peysa í grjótgarðinum við Hafnarfjarðarhöfn sem nú sé til rannsóknar hjá lögreglu, en ólíklegt þykir þó að peysan sé í eigu Birnu, að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá rannsóknardeild lögreglunnar.
Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir alla í viðbragðsstöðu og að stöðugt upplýsingaflæði sé á milli lögreglu og björgunarsveita. Byrjað verði að leita um leið og kallið berist.

