Kvikan sem er að valda landrisinu í Eldvörpum og Svartsengi er núna talin vera á þriggja til fjögurra kílómetra dýpi. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur telur líklegt að hægt verði að vara við eldgosi með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Grindvíkingar voru með tveimur jarðskjálfum snemma í morgun óþyrmilega minntir á þá ógn sem steðjar að byggðinni þessa dagana. Samkvæmt skjálftavef Veðurstofu Íslands varð skjálfti upp á 3,5 stig klukkan hálffimm og annar um fimmleytið sem mældist 3,2 að stærð, báðir með upptök aðeins einn og hálfan til tvo kílómetra frá Grindavík.
Óvenjuleg breyting sást á gps mælum í morgun sem sýndi að ekkert landris hafi orðið á svæðinu í gær. Vísindamenn vilja þó ekki draga of miklar ályktanir af þessari einu mælingu og segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur að skjálftamælir í Grindavík hafi í morgun sýnt að ekkert lát er á smáskjálftum, sem er merki um að landrisið sé enn í fullum gangi. Páll telur þó enn líklegast að næst verði kvikuinnskot neðanjarðar fremur en eldgos.
„Í mínum huga þá er gangainnskot langlíklegasti næsti þáttur í þessu, ef landrisið heldur áfram. Þetta er byggt á reynslu annarsstaðar frá, af svipuðum atburðum, bæði hér frá Kröflu og Bárðarbungu og Havaí og fleiri stöðum.“

Í frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi taldi Páll líklegast að ef það gysi þá yrði það á sprungu í Eldvörpum norðvestan við fjallið Þorbjörn. En hvenær í fyrsta lagi miðað við hraða landrissins gætu menn búist við eldgosi?
„Þetta er eitt af því sem er mjög illa vitað um. Við vitum ekki um hvar þröskuldurinn er. Við stefnum í áttina að einhverjum þröskuldi en við vitum bara ekki hvað hann er langt í burtu. Þannig að ég held að það sé best að segja sem minnst um það.
En það er líklegt að þegar að því kemur þá verður breyting á atburðarásinni. Og þær breytingar eiga að vera auðveldar, - að bera kennsl á. Þannig að það mundi þá vera tilefni til að gefa út viðvörun, þegar að því kemur. En það er líklegt að það sé þá fyrirvari sem menn hafa upp á einhverja klukkutíma.“
Páll segir að kvikan sé núna talin vera á þriggja til fjögurra kílómetra dýpi. Og það er ekkert sem bendir til á þessari stundu að eldgos sé að bresta á.
„Ég mundi segja, treysta mér til að segja, að þetta er ekki að fara að gerast á næstu klukkutímum. En ég veit ekki hvað gerist á morgun eða í næstu viku. Ég held að enginn geti sagt til um það,“ sagði Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi um líklega staðsetningu gossprungu: