Orkuveita Reykjavíkur hefur frá árinu 1999 lagt 13 milljarða í fjarskiptastarfsemi. Þar af hafa 4,7 milljarðar farið beint í Gagnaveitu Reykjavíkur frá stofnun hennar. RÚV greinir frá þessu.
Stjórn Orkuveitunnar hefur lagt kapp á að selja eignir fyrirtækisins til að grynnka á skuldum þess. Gagnaveituna hefur borið hátt í þeirri umræðu. Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitunnar, segir að enn eigi eftir að taka ákvörðun um söluverð Gagnaveitunnar og hvort hún verði seld fyrir minna fé en í hana hefur verið lagt.
Samþykkt var á stjórnarfundi Orkuveitunnar að birta upplýsingar um kostnað hennar við Gagnaveitu Reykjavíkur. Haraldur Flosi segir ekki hægt að birta ýtarlegri tölur vegna viðskiptahagsmuna. Ekki sé hægt að eyrnamerkja Gagnaveitunni alla þrettán milljarðana í dag, en megnið sé vissulega í fyrirtækinu.
Gagnaveita Reykjavíkur var stofnuð sem einkahlutafélag árið 2007 og er að fullu í eigu Orkuveitunnar en skilið er á milli bókhalds þessara tveggja fyrirtækja. Gagnaveitan rekur gagnaflutningskerfi, meðal annars ljósleiðaratengingar, sem nær frá Bifröst í Borgarfirði til Vestmannaeyja.
- bþh
Innlent