Framtíð norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian virðist hafa verið tryggð í morgun, í bili í það minnsta, þegar hluthafar samþykktu björgunaraðgerðir til handa félaginu sem rambar á barmi gjaldþrots.
Samþykki frá tveimur þriðju hluthafanna þurfti til að ráðist yrði í aðgerðirnar en þær ganga meðal annars út á að skuldum verði breytt í hlutafé auk þess sem hlutafé verði aukið, en norska ríkið krefst þess að slíkt verði gert áður en það stekkur inn í með neyðarlán að upphæð tveggja komma sjö milljarða norskra króna.
Tillögurnar voru samþykktar með níutíu prósentum greiddra atkvæða og því ætti leiðin að vera greið fyrir lánið frá norska ríkinu.