Innlent

Flór­goða­par dvaldi við Tjörnina í fyrsta sinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flórgoði (Podiceps auritus) á sundi.
Flórgoði (Podiceps auritus) á sundi. Vísir/getty

Stakur flórgoði sást við Tjörnina í Reykjavík 28. apríl í fyrra og annar fugl bættist fljótlega við. Fuglarnir dvöldu allavega út maí, að því er fram kemur í nýútkominni skýrslu umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar um fuglalíf á Tjörninni 2019. Flórgoði hefur sést tvisvar áður á Tjörninni en ekki dvalið líkt og nú.

Flórgoðarnir héldu sig mest við litla hólmann í Norðurtjörn og lifðu á hornsílum.

„Flórgoða hefur fjölgað á Innnesjum síðustu ár og vonandi halda þeir áfram að sækja Tjörnina heim. Það væri lag að útbúa hreiðurstæði fyrir þá næsta vor líkt og gert hefur verið með góðum árangri í Vífilsstaðavatni,“ segir í skýrslunni. Höfundar hennar eru Ólafur K. Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson.

Þá verptu alls sex andategundir við Tjörnina sumarið 2019. Stokkönd, gargönd, duggönd og skúfönd hafa verið árvissir varpfuglar frá upphafi talninga. Einnig fundust urtönd og toppönd með unga. Urtönd hefur verpt árlega frá 2014 og toppendur verpa endrum og eins. Enginn æðarfugl gerði tilraun til varps.

Skýrsluna í heild má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×