Erlent

Búið að lífláta Bigley?

Breski gíslinn Kenneth Bigley, sem haldið er föngnum af mannræningjum í Írak, hefur verið tekinn af lífi samkvæmt tilkynningu sem birt var á íslamskri vefsíðu í dag. Breska utanríkisráðuneytið segist ekki taka tilkynninguna trúanlega, enda hafi vefsíðan áður birt tíðindi af gíslum í Írak sem svo hafi komið í ljós að ekki áttu við rök að styðjast. Móðir Kenneths, Lil Bigley, kom fram í sjónvarpi í gær og grátbað hvern sem er að hjálpa syni sínum. Hún sagði hann „bara“ verkamann sem vildi vinna fyrir fjölskyldu sinni. Lil er áttatíu og sex ára og taugaspennan reyndist henni um megn. Skömmu eftir ávarpið var hún flutt á sjúkrahús í Liverpool en send heim í dag. Ekkert er vitað hvort Bigley er lífs eða liðinn en mannræningjarnir hafa ekki látið neitt frá sér heyra. Þeir krefjast þess að kvenföngum í fangelsum í Írak verði sleppt en þvertekið hefur verið fyrir að við kröfu þeirra verði orðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×