Innlent

Blendin viðbrögð við hughreystingarávarpi Katrínar

Jakob Bjarnar skrifar
Katrín segir nú píningsvetur að baki, sumarið heilsi, lóan er komin og það eigi að hlýna í vikunni. Engin dæmi eru um að forsætisráðherra stígi sérstaklega fram og ávarpi þjóðina með slík hughreystingarorð á vörum.
Katrín segir nú píningsvetur að baki, sumarið heilsi, lóan er komin og það eigi að hlýna í vikunni. Engin dæmi eru um að forsætisráðherra stígi sérstaklega fram og ávarpi þjóðina með slík hughreystingarorð á vörum. skjáskot

„Þetta er mjög óvanalegt. Ávörp sem þessi eru bara ekki hluti af íslenskri stjórnmálahefð,“ segir Eiríkur Bergmann prófessor og stjórnmálafræðingur í samtali við Vísi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði þjóðina sérstaklega á skjá Ríkissjónvarpsins í gær en Vísir streymdi ræðu hennar.

Eiríkur segir þetta sögulegt ávarp að því leyti til að fá dæmi eru um að þjóðarleiðtogi landsins ávarpi þjóðina utan dagskrár. Það þarf þá eitthvað verulega mikið að koma til. Efnislega er ávarpið ekki takti við neitt slíkt og því í raun erfitt að átta sig á þýðingu þess í hinum stjórnmálasögulega samhengi.

Síðast þegar forsætisráðherra steig sérstaklega fram til að ávarpa þjóðina þá var það í október árið 2008, þegar Geir H. Haarde mælti orðin sem urðu fleyg: „Guð blessi Ísland“.

Þegar stórviðburðir standa fyrir dyrum

Í bók sinni Iceland and the International Financial Crisis: Boom bust and recovery gerir Eiríkur einmitt það ávarp Geirs að sérstöku umfjöllunarefni og útgangspunkti.

„Ávarp forsætisráðherra er svo óvenjulegt. Og það var við þær aðstæður sem að það rann upp fyrir okkur að við værum í frekar vondum málum,“ segir Eiríkur.

Hann segir að við þekkjum þetta héðan og þaðan um veröldina að þjóðarleiðtogar stigi fram með skömmum fyrirvara en er ekkert endilega áberandi í ríkjum sem búa við sama stjórnkerfi og við. „Þannig að erfitt að ræða þetta út frá einhverjum hornsteinum. Ekkert til að grípa í til að meta þessa ræðu.“

Ólafur Þ. Harðarson prófessor og stjórnmálafræðingur segist, í samtali við Vísi, ekki reka minni til ávarps forsætisráðherra sem þessa, það er utan dagskrár, nema Geirs en svo þarf að fara langt aftur á bak í tíma. Hermann Jónasson þá forsætisráðherra ávarpaði Íslendinga við hernámið 1940. Og kannski hefur álíka ræða verið haldin við útfærslu landhelginnar en prófessorinn kemur því ekki fyrir sig. Og hugsanlega hafi Ólafur Jóhannesson stigið fram þegar gaus í Eyjum. Ólafur nafni hans Harðarson man að í honum drundi í sjónvarpsþætti: Vestmannaeyjar munu rísa! En, fleira er það varla.

Fátítt að forsætisráðherra ávarpi þjóðina utan dagskrár

„Altént er þetta afar sjaldgæft. Ef dæmin eru bara þessi þrjú gerist þetta bara á miklum örlaga- og háskatímum í sögu þjóðarinnar. Almennt hefur forsætisráðherra tækifæri til að ávarpa þjóðina tvisvar á ári - í stefnuræðu forsætisráðherra í upphafi þings og í áramótaávarpi. Og svo koma fram og tala þegar hann/hún vill í sjónvarpsfréttum og fréttaskýringaþáttum. Þess vegna hafa þessi sérstöku ávörp sennilega verið svona sjaldgæf og bundin við einstök tíðindi,“ segir Ólafur.

Stjórnmálafræðiprófessorarnir Eiríkur og Ólafur segja ávarpið brjóta blað í stjórnmálasögunni.

Það sem rekið hefur íslenska þjóðarleiðtoga fram á sviðið með ávörp sem þessi hafa verið válegir tíma en nú virðist hins vegar allt á uppleið eftir rúmlega mánaðarlanga erfiða baráttu við Covid-19. Eða svo vitnað sé í ávarpið sjálft: „Píningsveturinn er að baki, sumarið heilsar okkur, lóan er komin og það á að hlýna í vikunni.“

Gunnar Smári Egilsson formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins furðar sig á tímasetningu ávarpsins á vettvangi Sósíalista á Facebook:

„Þetta er rúmum mánuði of seint til að geta fjallað um kórónavírusinn, áhrif hans á samfélagið, nauðsyn samstöðu og lokun samfélagsins. Erna Solberg var með slíkt ávarp 16. mars, Angela Markel 18. mars, svo dæmi séu tekin,“ skrifar Gunnar áður en til ávarpsins kom.

Efnisrýr ræða

Gunnar Smári reyndi fremur napur í bragði að geta sér til um efni þess og innhald.

„Þetta hlýtur þá að vera Guð blessi Íslands-ávarp komandi kreppu og hruns, tilkynning um að ríkið sé að taka yfir Icelandair og önnur mikilvæg fyrirtæki, sett hafi verið neyðarlög og gjaldeyrishöft, og svo í lokin smá rafstuð svo landsmanna átti sig á að það sem var sé horfið og dökkir og þungir tímar fram undan. Og ljós einhvers staðar langt langt í burtu. Nema Katrín sé að slíta ríkisstjórn, rjúfa þing og boða kosningar. Eða hver getur verið ástæða þess að Katrín ávarpar þjóðina 47 dögum eftir að Ernu Solberg gerði það, ekki ætlar hún að koma loksins með ávarpið sem hún hefði átt að flytja um miðjan mars? Nei, fjandakornið,“ segir Gunnar Smári.

En engin stórtíðindi var að finna í ávarpi Katrínar.

Sirrý, sem undanfarin ár hefur staðið fyrir námskeiðum af ýmsu tagi þar sem meðal annars er stefnt að því að sjálfsmyndin sé efld, var afar hrifin af ávarpi Katrínar sem að mati Sirrýar var bæði innihaldsríkt og gott. 

„Hún var ekkert sérlega efnismikil,“ segir Eiríkur Bergmann um ræðu Katrínar. „Þar komu ekki fram einhverjar mikilvægar sérstakar tilteknar upplýsingar um stefnumál. Ekkert slík kom fram í þessu. Heldur er þetta einhvers konar hughreystingarávarp. Það er í sjálfu sér mjög athyglisvert. Farið inn á braut sem ég veit ekki alveg hvert liggur.“

Eiríkur segir að varla sé hægt að tala um að ræðan hafi verið skaðleg og engin sérstök ástæða til að gera einhverjar sérstakar athugasemdir. En spyrja megi hvort þetta marki upphafið að því að forsætisráðherra fari að ávarpa þjóðina oftar með beinum hætti, það geti vel verið.

Tími freka karlsins formlega liðinn

Vísir lagði í leiðangur um samfélagsmiðla með það fyrir augum að komast að því hvernig ávarp Katrínar hafi lagst í mannskapinn. Viðbrögð eru ekki mikil en þó einhver og þá misvísandi. Sirrý Arnardóttir rithöfundur og sjónvarpskona hreifst mjög að ræðu Katrínar.

„Tími freka karlsins er formlega liðinn!!!“ skrifar Sirrý á Facebooksíðu sína. Og sparar hvergi upphrópunarmerkin. Og öfugt við viðmælendur Vísis þá telur Sirrý ræðuna innihaldsríka.

„Við lifum í samfélagi sem býr yfir mýkt og seiglu. Eigum forsætisráðherra sem talar til okkar (ekki yfir okkur) á góðri íslensku og mýkt og skynsemi. Mikið var ræðan sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti á RÚV innihaldsrík og góð. Bakgrunnurinn sýndi umhverfi manneskju sem er vinnusöm, eðlileg og frjálsleg. Ég er stolt af að tilheyra svona samfélagi sem birtist í ávarpi Katrínar,“ segir Sirrý. Hún segist ekki vera að halda því fram að allt sé fullkomin eða í jafnvægi. „EN hvergi annarstaðar vildi ég vera núna.“

Vantar kjötið

Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi OR tjáir sig um ávarpið og hann er ekki alveg eins upprifinn og Sirrí.

„Snöggt mat: Ávarp forsætisráðherra var í miðlungi, fannst mér. Byrjaði fyrirsjáanlega. Fyrri hlutinn hefði raunar getað verið saminn af einhverri nefnd,“ skrifar Eiríkur.

En, svo náði Katrín að heilla Eirík uppúr skónum um miðbik sinnar tölu.

„Óx svo hratt um miðbikið og endaspretturinn stórfínn. Ef ég ætti að líkja þessu við eitthvað þá var fyrri hlutinn eins og slögin utan á lambahrygg en slúttaði svo með uppáhaldinu mínu, bragðgóðri og stökkri pöru. Það vantaði hinsvegar kjöt, fannst mér,“ segir Eiríkur og notar þar frumlegt líkingarmál.

„En svo er smekkurinn misjafn; sumt fólk ketó og annað vegan.“

Öllu óþægilegu sleppt

Og svo er sá þriðji, ellilífeyrisþegi og álitsgjafi í Grindavík, Björn Birgisson, sem telur ávarpið ekki merkilegt, þá einkum vegna þess sem þar er ekki að finna.

„Katrínu mæltist vel og fór vel með það sem hún valdi að ræða við þjóðina,“ skrifar Björn og segir að í stuttu ávarpi sé ekki hægt að koma inn á alla hluti.

„En hún valdi að ræða ekki endurgreiðslur fyrirtækjanna á 300 milljörðum sem þau fá nú úr ríkissjóði - hvaða væntingar hún hefur um þær endurgreiðslur - eða hvort almenningur eigi að borga brúsann allan - rétt eins og venjulega.

Hún kom heldur ekkert inn á að ráðamenn þjóðarinnar eru nú að fá fáránlegar launahækkanir - á sama tíma og kjör langflestra eru að skerðast verulega.

Hún kom ekkert inná að ráðamenn forðast eins og heitan eldinn að deila kjörum með þjóðinni.

Það er enginn vandi að halda fallega ræðu - þegar öllu óþægilegu er sleppt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×