Flugvél Icelandair lenti í mikilli ókyrrð á leið sinni til Manchester frá Keflavík í dag og var þotunni snúið við og lent í Glasgow. Hræðsla og geðshræring greip um sig meðal farþega í ókyrrðinni og brugðust þeir illa við því að vélinni yrði snúið aftur til Íslands.
Fyrirhugað var að fljúga með alla farþega Boeing 757-256 þotunnar aftur hingað til lands en horfið var frá því þegar flestir um borð neituðu að fljúga aftur, er fram kemur í frétt RÚV.
Að lokum var fallist á það að hleypa þeim farþegum út í Glasgow sem þess óskuðu. Óveðrið Ciara gengur nú yfir Bretlandseyjar og hefur haft mikil áhrif á samgöngur bæði í lofti og á láði.

Að sögn RÚV grétu sumir farþegar vélarinnar af hræðslu og hefur atvikið verið tilkynnt til rannsóknarnefndar samgönguslysa hér á landi. Hún mun hafa vísað málinu áfram til bresku rannsóknarnefndarinnar.
Nokkrir farþegar hafa lýst hræðslu og slæmri upplifun sinni af flugferðinni á samfélagsmiðlum.
Emma J Thomas greinir til að mynda frá því á Twitter að þegar flugstjóri flugvélarinnar hafi tilkynnt þeim að stefnt væri að því að taka á loft aftur og fljúga til Íslands hafi margir farþegar hrópað „nei“ í einum kór. Hún biðlaði í kjölfarið til Icelandair og flugmálayfirvalda í Glasgow um að fólki yrði leyft að fara frá borði.
Pilot @Icelandair announces on tannoy... current plan is to take off AGAIN, fly BACK to Iceland to make another attempt to land in Manchester tomorrow. Shouts of “no” from passengers. Again @GLA_Airport please open the doors. #StormCiara
— Emma J Thomas (@EmmaJThomas) February 9, 2020
Að hennar sögn var reynt að lenda flugvélinni í Manchester í um klukkutíma án árangurs. Hún lýsir því hvernig margir hafi verið hungraðir, hræddir og jafnvel með ógleði við lendinguna í Glasgow. Sjúkraliðar hafi að lokum komið um borð og boðið farþegum aðstoð áður en þeim var hleypt úr flugvélinni.
Vélin tók aftur á loft frá Glasgow klukkan 16:10 að staðartíma samkvæmt upplýsingum frá Flightradar24 og er reiknað með því að hún lendi á Keflavíkurflugvelli um klukkan sex.
Í svari Icelandair til óánægðs farþega er tekið fram að upphaflega ákvörðunin um að snúa aftur til Íslands með alla farþega hafi verið tekin til að tryggja öryggi farþega og áhafnar. Verður hinum óheppnu ferðalöngum bættur sá gistikostnaður sem þeim hlýst af atvikinu.
Hello Jack, Unfortunately due to storm Ciara we were forced to divert flight FI440 to Glasgow. Passenger and crew safety is our top priority, we will always take necessary action to ensure a safe travel experience. An email about accommodation compensation has been sent.
— Icelandair (@Icelandair) February 9, 2020