Innlent

Faraldurinn getur geisað mánuðum saman

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Sóttvarnarlæknir segir að það muni taka langan tíma fyrir 2019 kórónaveiruna að ganga yfir. Dauðsföll af völdum veirunnar eru nú orðin fleiri en af SARS veirunni.

Þegar SARS-faraldurinn gekk fyrir sautján árum létust tæplega átta hundruð manns af völdum veirunnar. Nú eru dauðsföllin af völdum 2019 kórónaveirunnar þegar komin yfir átta hundruð og heldur talan áfram að hækka. Þá hafa hátt í fjörutíu þúsund greinst með veiruna. Víða hefur verið gripið til umfangsmikilla aðgerða til að reyna að sporna við útbreiðslu faraldursins. 

Í dag fengu ríflega þrjú þúsund farþegar og áhöfn skemmtiferðaskipsins World Dream að fara frá borði í Hong Kong. Þeim hafði verið haldið í fimm daga í sóttkví um borð í skipinu af ótta við að farþegar væru smitaðir af veirunni. Sýni leiddu hins vegar í ljós að svo reyndist ekki vera. Farþegar annars skemmtiferðaskips í Japans eru hins vegar enn í sóttkví en tugir farþega um borð hafa greinst með veiruna.

Nú er búið að greina veiruna í átta löndum Evrópu og er talið að veiran muni greinast hér. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir ljóst að það taki marga mánuði fyrir faraldurinn að ganga yfir. „Það getur tekið mjög langan tíma. SARS-faraldurinn gekk yfir á einu ári til dæmis. Þannig að við erum ekki að horfa á þetta sem eitthvert spretthlaup. Þetta er ekki eitthvað sem við teljum að gangi yfir núna bara á næstu dögum eða næstu vikum. Ég held að við séum að horfa á næstu mánuði,“ segir Þórólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×