Koma á í veg fyrir að stór hluti jarða í landinu safnist á fáar hendur með frumvarpi um jarðakaup sem verður kynnt í vikunni. Forsætisráðherra segir ekki verða hægt að fara í kringum reglurnar með kennitölukrúsídúllum.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri Grænna boðað frumvarp um jarðakaup í ræðu sinni á flokksráðsfundi flokksins sem fór fram í gær í og í fyrradag. Frumvarpið er svokallaður bandormur þar sem málið heyrir undir mörg ráðuneyti. Það fer í samráðsgátt stjórnvalda í vikunni og verður lagt fram á yfirstandandi þingi að loknu umsagnarferli.
„Í fyrsta lagi kveður það á um hvað skilyrði aðilar utan EES þurfi að uppfylla til að geta keypt land á Íslandi. Í öðru lagi erum við að tala um stórbætta skráningu í landeignaskrá sem heyrir undir þjóðskrá sem er auðvitað mjög mikilvægt atriði, að það ríki gagnsæi um þessi mál og að upplýsingar um þau séu aðgengileg meðal annars um raunverulegt eignarhald. Í þriðja lagi erum við að tala um heimild til ráðherra til þess að setja hömlur á það ef jarðir eða landareignir fara yfir ákveðna stærð.“
Katrín segir að miðað sé við mjög stórar landareignir og að reglurnar eigi því ekki að vera íþyngjandi gagnvart hefðbundnum viðskiptum.
„Ætlunin er auðvitað að bregðast við þeim áhyggjum sem við höfum fundið fyrir í samfélaginu að stórir hlutar landsins séu í raun og veru að safnast á mjög fáar hendur.“
Með bættri skráningu um endanlegt eignarhald ættu stjórnvöld að geta stoppað það af ef sami aðili er að kaupa upp stóra jörð í gegnum mismunandi félög.
„Hugsunin er sú að það sé ekki hægt að fara í kring um þetta með einhverjum kennitölukrúsídúllum.“
Í þessu frumvarpi er ekki gerðar kröfur um ábúnað eða nýtingu.
„Síðan auðvitað er það svo að ég held að það þurfi að horfa til lengri tíma þegar kemur til dæmis að landi í búnaðarnýtingu.“
Hún segir það vera eðlilegan hluta fullveldis þjóðar að hafa yfirsýn yfir það hverjir eigi landið.
„Nú í öðru lagi er þetta auðvitað nátengt auðlindanýtingu og ég held að það sé alveg ljóst að við viljum ekki sjá stjórnun auðlindanýtingar vera á of fáum höndum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.