Innlent

Hellar í Eldvörpum girtir af vegna lífshættulegrar gasmyndunar

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Lögreglumenn á Suðurnesjum fóru á svæðið í dag og girtu af hella til að varna því að fólk fari inn í þá.
Lögreglumenn á Suðurnesjum fóru á svæðið í dag og girtu af hella til að varna því að fólk fari inn í þá. Vísir/Egill

Lögreglan á Suðurnesjum girti í dag af hella í Eldvörpum á Reykjanesskaga vegna lífshættulegrar gasmyndunar í þeim. Enn þá er hægt er að fara um svæðið við hellana en til að koma í veg fyrir að fólk fari ofan í þá þótti ráðlegast að girða þá af.

Veðurstofa Íslands varaði í dag við hellaskoðun eftir að gasmæling á svæðinu í gær sýndi miklar breytingar í einum helli. Mælingin sýndi í raun lífshættuleg gildi af lofttegundum og skort á súrefni.

Elvörp eru gömul gígaröð.Vísir/Egill

Fjölmargir hellar eru í Eldvörpum sem er gömul gígaröð. Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir í raun ekki óhætt að fara ofan í neinn helli á svæðinu. Heldur ekki þá sem ekki er búið að girða fyrir. „Við í rauninni mælumst til þess að fólk sé ekki að fara ofan í hella á svæðinu,“ segir Kristín.

Kristín segir ekki hægt að útiloka að gasmyndunin sé tengd jarðskjálftavirkni á svæðinu. Þá segir hún enn nokkra virkni á svæðinu. „Það er ekki jafn svona hröð svona aflögun og mikið landris eins og var þarna í upphafi en það er áfram óvissa á svæðinu,“ segir Kristín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×