„Aðventan og jólin sjálf virðast hafa gengið vel, sem að náttúrlega er bara fagnaðarefni, við virðumst ekki vera að sjá smit fara á flug eftir það eins og var óttast og okkur sýnist bara að fólk hafi verið mjög duglegt að taka þátt í þessu með okkur og við höfum gert þetta bara saman,“ segir Rögnvaldur.
Svo virðist sem flestir hafi farið eftir leiðbeiningum varandi persónubundnar smitvarnir og haldið sig í sínum jólakúlum. Þó eigi eftir að koma betur í ljós eftir nokkra daga hvort smit hafi farið á flug um áramótin.
„Við höfum náttúrlega allan tímann búist við því að þetta myndi fara á flug, bara í og á aðventunni og í kringum áramótin. En enn sem komið er þá virðist það ekki vera að rætast sem er bara fagnaðarefni. Svo munum við sjá á næstu dögum og vikum hvernig við komum í rauninni heilt yfir undan þessu. Bæði með áramótin og líka þegar fólk fer að snúa aftur heim úr sínum jólaferðalögum erlendis. Þannig að þetta mun svolítið koma í ljós í janúar, hvernig hefur í raun og veru gengið,“ segir Rögnvaldur.
Hann hafi ekki heyrt af mikilli hópamyndun um áramótin umfram það sem sagt hafi verið frá í fjölmiðlum. „Fólk var hittast eins og niðri við Hallgrímskirkju og á fleiri stöðum en svo vonum við bara að það muni ekki skila okkur í fjölda smita,“ segir Rögnvaldur.
Hann segir mikilvægt að slaka ekki á núna þegar bóluefni er loksins komið í umferð. „Síðan er það bara næsta verkefni okkar í rauninni að halda áfram í rauninni á þessari braut því að þetta er ekki búið eins og hefur margoft komið fram. Við náttúrlega erum búin að sjá að bóluefnið er byrjað að koma til landsins en það er ennþá langt í land að við náum að bólusetja þann fjölda sem við ætlum okkur og þá þarf bara að halda út,“ segir Rögnvaldur.
„Og við vitum náttúrlega ekki alveg nákvæmlega með afhendingartímann á bóluefninu þannig að hvort þetta klárist í vor eða í haust, það verður bara tíminn að leiða í ljós en það alla veganna hillir undir það að þetta muni klárast. Lausnin er í raun og veru komin en svo þurfum við bara að hafa þolinmæði til að bíða eftir henni og ekki missa faraldurinn í einhvern veldisvöxt eða áflug á þeim tíma,“ segir Rögnvaldur.