Bólusetning við kórónuveirunni með bóluefni lyfjaframleiðandans Pfizer hófst 29. desember hér á landi.
Alma kvaðst hafa kannað tilkynningar um aukaverkanir hjá Lyfjastofnun Íslands í morgun. Þangað hefðu komið sjö tilkynningar og þar af „hugsanlega ein alvarleg“. Algjörlega óljóst væri þó um orsakasamband í því tilfelli vegna undirliggjandi sjúkdóma. Fréttastofa hefur sent Lyfjastofnun Íslands fyrirspurn vegna málsins.
Alma sagði mjög mikilvægt að fólk hugsi um mögulegar aukaverkanir af völdum bólusetningarinnar og tilkynni þær. Væg einkenni, þ.e. flensueinkenni, þreyta og höfuðverkur, væru vel þekkt og sjálf kvaðst Alma þekkja nokkra sem fengið hefðu slíkar aukaverkanir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði marga hafa kvartað undan þessum hefðbundnu bólusetningaraukaverkunum; þrota á stungustað, hita og beinverkjum.