Í umræddu símtali þrýsti Trump á Raffensperger að snúa niðurstöðum forsetakosninganna í Georgíu við og gaf í skyn að hann gæti verið sóttur til saka.
Raffensperger hafði áður verið í svipaðri stöðu, þegar hann sagði öldungadeildarþingmanninn og bandamann Trumps, Lindsey Graham, hafa hringt í sig og beitt sig þrýstingi vegna kosninganna. Eftir að Raffensperger sagði frá því, neitaði Graham.
Sjá einnig: Segir Repúblikana þrýsta á sig til að útiloka lögleg atkvæði í Georgíu
Ráðherrann og ráðgjafar hans áttu von á því að Trump myndi beita þá þrýstingi, samkvæmt umfjöllun Politico. Vegna þessa, og vegna þess að þeir áttu von á því að Trump myndi segja ósatt frá samtalinu, ákváðu þeir að taka forsetann upp.
Að endingu rættist svo það sem þeir óttuðust. Trump tísti um símtalið og sagði að Raffensperger hefði ekki viljað, eða ekki getað, svarað spurningum sínum um hin meintu kosningasvik sem eiga að hafa kostað Trump sigur í kosningunum.
„Hann hefur ekki hugmynd!“ sagði forsetinn.
Raffensperger svaraði með eigin tísti og sagði að Trump væri að segja ósatt og að sannleikurinn myndi koma í ljós.
Respectfully, President Trump: What you're saying is not true. The truth will come out https://t.co/ViYjTSeRcC
— GA Secretary of State Brad Raffensperger (@GaSecofState) January 3, 2021
Í gærkvöldi voru fjölmiðlar svo komnir með upptökuna af um klukkustundarlöngu símtalinu í hendurnar.
„Ég vil bara finna 11.780 atkvæði,“ sagði Trump, sem tapaði gegn Joe Biden með 11.779 atkvæðum í Georgíu, meðal annars.
Forsetinn sagði einnig að það væri ekki séns að hann hefði tapað í Georgíu og að hann hefði í rauninni unnið með hundruðum þúsunda atkvæða. Gaf hann í skyn að Raffensperger yrði sóttur til saka fyrir að segja ekki frá hinu meinta kosningasvindli.
„Íbúar Georgíu eru reiðir. Fólkið í landinu er reitt. Það er ekkert að því að segja, þú veist, að þú hafir endurreiknað.“
Forsetinn fór ítrekað með fleipur og ósannindi í símtalinu og hlustaði ekkert á Raffensperger og starfsmenn hans þegar þeir reyndu að útskýra fyrir Trump að hann færi með rangt mál og af hverju.
Hér að neðan má heyra hljóðbrot úr símtalinu.
Lesa má hvernig allt samtalið fór fram á vef Washington Post.
Sérfræðingar og þingmenn hafa sagt líkur á því að með þessum þrýstingi hafi Trump brotið bæði alríkislög og lög Georgíuríkis. Sérstaklega varðandi það að biðja Raffensperger um að „finna“ tiltekinn fjölda atkvæða og að ýja að því að hann yrði mögulega sóttur til saka fyrir að gera það ekki, samkvæmt sérfræðingum sem blaðamenn Politico hafa rætt við.
Washington Post segir að eini Demókratinn í kjörstjórn Georgíu hafi lagt formlega til að Raffnesperger rannsaki hvort Trump hafi brotið kosningalög Georgíu. Sá segir í samtali við WP að það að biðja innanríkisráðherra um að breyta niðurstöðum kosninga sé skýrt dæmi um kosningasvik.
Sambærileg tillaga, sem byggir á sömu lögum, var lögð fram varðandi símtali Graham og Raffensperger.
Þrátt fyrir umfangsmikla leit Donalds Trump, fráfarandi forseta Bandaríkjanna, og bandamanna hans að kosningasvindli í lykilríkjum í Bandaríkjunum, og ásakanir um að slíkt svindl hafi kostað Trump sigur í forsetakosningunum í byrjun nóvember, hafa tiltölulega fá og umfangslítil tilvik fundist. Örfá hafa leitt til ákæra.