RÚV greindi fyrst frá en í samtali við Vísi segir Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðsins Akraness og Hvalfjarðarsveitar að hreinsunarvinna sé nú í fullum gangi.
Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum dreifðist sementsrykið yfir hús og bíla en Jens Heiðar segir að dreifingin hafi að mestu verið staðbundin við Mánabraut, þar sem síló Sementsverksmiðjunnar eru staðsett.

Á vef Skessuhorns er haft eftir Gunnari Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar að um mannleg mistök hafi verið að ræða. Umrædd síló hafi yfirfyllst þegar verið var að fylla á það með þeim afleiðingum að sementsryk dældist upp úr síló-inu og yfir umrætt svæði.

Jens Heiðar segir að reiknað sé með að hreinsunarstarf standi yfir fram eftir degi en slökkvilið hefur meðal annars stíflað niðurföll svo rykið berist ekki ofan í fráveitukerfið, að beiðni Veitna.
Hann segir þó að Umhverfisstofnun telji að ekki sé um svo mikið magn að ræða að það teljist skaðlegt umhverfinu.

Rykið er spúlað af bílum og þökum með vatni og safnað saman í hauga en Jens segir að beðið sé eftir bílum frá Reykjavík sem muni sjúga upp haugana sem safnað hefur verið saman.