Viðskipti innlent

Baldvin mun leiða Evrópuútgerð Samherja

Eiður Þór Árnason skrifar
Baldvin mun hafa aðsetur í Hollandi. Hann starfar nú sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja.
Baldvin mun hafa aðsetur í Hollandi. Hann starfar nú sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja. Aðsend

Baldvin Þorsteinsson mun taka við stjórnartaumunum hjá Deutsche Fischfang Union, dótturfélagi Samherja í Þýskalandi og verða í forsvari fyrir útgerðarstarfsemi samstæðunnar í Evrópu. Hann tekur við af Haraldi Grétarssyni sem lætur af störfum í apríl.

Greint er frá þessu á vef Samherja og kemur fram að Haraldur hafi unnið fyrir samstæðuna og tengd félög allt frá árinu 1992. Hann mun eftir starfslokin sinna ráðgjöf fyrir félög tengd Samherja út þetta ár. 

Haft er eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóri Samherja, að Haraldur hafi verið einn af burðarásunum í rekstri Samherja Holding um langt skeið. Hann hafi borið ábyrgð á Evrópuútgerð félagsins og þeim viðamiklu samskiptum sem fylgi sjávarútveginum í Evrópu.

Að sögn Samherja mun Baldvin hafa aðsetur í Hollandi og verða samhliða þessu „gerðar eðlilegar skipulagsbreytingar á næstu misserum.“

Baldvin, sem er sonur Þorsteins Más, starfar nú sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja. Greint var frá því í maí síðastliðnum að Þorsteinn, auk þriggja annarra aðaleigenda útgerðarfyrirtækisins, hefðu framselt hlutabréfaeign sína í Samherja til barnanna sinna. 

Eftir það urðu stærstu hluthafar Baldvin Þorsteinsson og Katla Þorsteinsdóttir, sem fara samanlagt með um 43,0% hlut og Dagný Linda Kristjánsdóttir, Halldór Örn Kristjánsson, Kristján Bjarni Kristjánsson og Katrín Kristjánsdóttir sem fara samanlagt með um 41,5% hlutafjár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×