Erlent

Yfirmaður almannavarna í Svíþjóð hættir eftir ferðina til Kanarí

Atli Ísleifsson skrifar
Dan Eliasson tók við starfi yfirmanns Almannavarnastofnunar Svíþjóðar árið 2018, en hann hafði áður starfað sem ríkislögreglustjóri.
Dan Eliasson tók við starfi yfirmanns Almannavarnastofnunar Svíþjóðar árið 2018, en hann hafði áður starfað sem ríkislögreglustjóri. EPA

Dan Eliasson, yfirmaður Almannavarnastofnunar Svíþjóðar, hefur óskað eftir því að láta af störfum. Eliasson hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ferð sem hann fór í um jólin til Las Palmas.

Greint er frá ósk Eliasson í fréttatilkynningu á vef stofnunarinnar en Eliasson fundaði með Mikael Damberg, innanríkisráðherra Svíþjóðar, í dag vegna ferðar Eliassonar til Kanaríeyja um jól og áramót.

„Það mikilvæga er ekki ég sem persóna. Það mikilvæga er hvernig við sem samfélag tökum á heimsfaraldrinum og að öll athygli beinist að því ótrúlega mikilvæga verkefni. Ástæða afstöðu minnar er að MSB [Almannavarnastofnun Svíþjóðar] á sem yfirvald að vera með bestu mögulegu forsendur til að geta sinnt sínu hlutverki,“ segir Eliasson í yfirlýsingunni.

Eftir að greint var frá ferð Eliassonar í sænskum fjölmiðlum sagði hann ferðina hafa verið nauðsynlega, en stofnunin hafði áður ítrekað ráðið fólki frá óþarfa ferðalögum.

„Ég komst að þeirri niðurstöðu að ferðalagið hafi verið nauðsynlegt. Ég á dóttur sem býr hér og starfar. Ég fagnaði jólunum með henni og fjölskyldu minni,“ hafði Expressen eftir Eliasson.

Eliasson tók við starfi yfirmanns Almannavarnastofnunar Svíþjóðar árið 2018, en hann hafði áður starfað sem ríkislögreglustjóri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×