Demókratar eru í meirihluta í fulltrúadeildinni og þó nokkrir öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins hafa sagst ætla að staðfesta niðurstöðurnar. Þá hafa fregnir borist af því að Mitch McConnell, forseti öldungadeildarinnar, muni í ræðu sinni gagnrýna þá þingmenn flokksins sem ætla að mótmæla niðurstöðunum.
Fjölmargir stuðningsmenn forsetans fráfarandi hafa komið saman fyrir utan Hvíta húsið í Washington DC, þar sem þau krefjast þess að niðurstöðum kosninganna verði snúið.
Staðfesting þingsins er yfirleitt lítið annað en formsatriði. Varaforseti Bandaríkjanna hefur iðulega stýrt þessari samkomu. Hlutverk hans er að lesa upp niðurstöður tiltekinna ríkja. Trump hefur þó þrýst mikið á Mike Pence, varaforseta sinn, og krafist þess að hann komi í veg fyrir kjör Bidens svo hann geti haldið áfram að vera forseti.
Á kosningafundi í Georgíu fyrr í vikunni sagði Trump til að mynda að hann vonaðist til þess að Pence myndi standa sig í stykkinu. Trump sagði Pence vera góðan mann en honum myndi ekki líka jafn vel við hann ef hann hjálpaði sér ekki.
Pence mun þó hafa tilkynnt Trump að það gæti hann ekki gert. Hann hefði ekki vald til þess, eins og Trump hefur haldið fram. Trump segir þær fregnir ekki réttar og hann og Pence séu sammála um að varaforsetinn hafi vald til að stöðva staðfestinguna, sem hann hefur ekki.
Sjá einnig: Pence tjáði Trump að hann hefði ekki vald til að breyta úrslitunum
Trump hélt þó áfram að þrýsta á Pence og kallaði eftir því á Twitter í morgun að varaforsetinn „sýndi hugrekki“.
States want to correct their votes, which they now know were based on irregularities and fraud, plus corrupt process never received legislative approval. All Mike Pence has to do is send them back to the States, AND WE WIN. Do it Mike, this is a time for extreme courage!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 6, 2021
Í öðru tísti, sem var eingöngu skrifaði í hástöfum, sagði Trump að Repúblikanar þörfnuðust Hvíta hússins og neitunarvald forsetans. Virtist hann vera að vísa til þess að útlit sé fyrir að Demókratar séu að ná að jafna fjölda þingmanna í öldungadeildinni. Það er þó varaforseti Bandaríkjanna sem ræður úrslitum þar. Þannig mun Kamala Harris, verðandi varaforseti, eiga úrslitaatkvæði í öldungadeildinni.
THE REPUBLICAN PARTY AND, MORE IMPORTANTLY, OUR COUNTRY, NEEDS THE PRESIDENCY MORE THAN EVER BEFORE - THE POWER OF THE VETO. STAY STRONG!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 6, 2021
Þrátt fyrir ítrekaðar staðhæfingar um að umfangsmikið kosningasvindl hafi kostað hann sigur hefur Trump og bandamönnum hans ekki tekist að sýna fram á það. Trump-liðar hafa höfðað tuga dómsmála og hafa nánast öll þeirra ekki farið þeim í vil. Flestum hefur verið vísað frá og í mörgum hefur málflutningi Trump-liða verið hafnað vegna skorts á sönnunargögnum.
Fjölmargar rannsóknir og endurtalningar hafa þar að auki farið fram og hafa þær ekki varpað ljósi á hið meinta kosningasvindl.
Politico hefur eftir heimildarmönnum sínum að í einrúmi viðurkenni Trump að hann hafi tapað kosningunum en haldi því samt fram að kosningarnar hafi verið ósanngjarnar. Það gerði hann einnig fyrir og eftir kosningarnar 2016, sem hann vann en fékk þó færri atkvæði en Hillary Clinton, mótframbjóðandi hans.
Heimildarmenn Politico segja að stærsta ástæða þess að Trump láti ekki af baráttu sinni sé að hann vilji að athyglin beinist að honum og að áfram verði talað um hann í fréttunum. Einn heimildarmannanna, sem hefur rætt persónulega við Trump um málið, sagði þetta vera skömmustulegt fyrir forsetann.