Viðskipti innlent

Kaupfélag selur líftæknifyrirtæki til kakósúpufabrikku

Eiður Þór Árnason skrifar
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga.
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga. Mynd/Aðsend

Matvælafyrirtækið Vilko og bætiefnaframleiðandinn Náttúrusmiðjan hafa keypt allt hlutafé í íslenska líftæknifyrirtækinu Protis sem hefur verið í eigu Kaupfélags Skagfirðinga frá upphafi.

Protis sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu á lífvirku fiskprótíni úr villtum íslenskum þorski og framleiðir vörur á borð við Protis-liði og Protis-kollagen. Í tengslum við viðskiptin verður Kaupfélag Skagfirðinga fimmtungshluthafi í Vilko ehf en eitt af markmiðum viðskiptanna er að auka samstarf milli aðilanna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Feykir greinir frá.

Þar segir að framtíðarsýn nýrra eigenda felist í að breikka vörulínu Protis og efla fyrirtækið. Náttúrusmiðjan selur bætiefni undir merkjum Iceherbs og Iceherbs Skin. Vilko sem er starfrækt á Blönduósi hefur hylkjað og pakkað vörum Protis síðustu ár auk þeirra frá Náttúrusmiðjunni. 

Fleiri kannast þó við Vilko sem framleiðanda Vilko vaffla, kakósúpu og krydds sem selt er undir merkjum Prima.

„Það er mikið fagnaðarefni að fá Protís inn í eignasafn fyrirtækisins og ekki síður að fá Kaupfélag Skagfirðinga inn í eignarhaldið,“ er haft eftir Kára Kárasyni, framkvæmdastjóra Vilko, í tilkynningu. 

Með viðskiptunum fáist mikil reynsla og þekking auk þess sem þau séu lyftistöng fyrir atvinnulíf á Norðurlandi vestra en framleiðsluaðstaða Protis er staðsett á Sauðarkróki. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×