Þetta kemur fram í svari Arnars Pálssonar, erfðafræðings og prófessors í lífupplýsingafræði, við Háskóla Íslands við spurningu um þróun SARS-Cov-2.
Átta þróunarbrautir veirunnar
Arnar segir að í upphafi faraldursins hafi SARS-CoV-2-veirurnar allar verið næstum eins, og lítill munur á smithæfni eða alvarleika sjúkdómsins.
Þættir veirunnar á borð við smithættu og alvarleika sýkingar geti svo aukist eða minnkað – en þróun þarfnast breytingar, segir Arnar. Stökkbreytingar muni „hlaðast upp“ svo lengi sem veiran nái að fjölga sér og berast manna á milli. Líklegast sé þó að stökkbreytingarnar skerði hæfni en einhverjar muni samt auka til dæmis smithæfni.
Í ljósi þessa segir Arnar átta þróunarbrautir mögulegar fyrir veiruna og setur fjórar þeirra fram (Mynd C fyrir neðan sýnir þessar brautir):
- Aukin smithæfni, en engin breyting á alvarleika einkenna (blá ör) – líklegt.
- Aukin smithæfni, aukin alvarleiki einkenna (rauð ör) – ólíklegt.
- Aukin smithæfni, vægari einkenni (gul ör) – líklegt.
- Minni smithæfni og óbreyttur alvarleiki einkenna (græn ör)– mjög ólíklegt.
![](https://www.visir.is/i/281FA23D4283AF50AAE317857CFB31E3802CAC540BE336445B4FCE9AFBA66B31_713x0.jpg)
Aukin smithæfni nógu alvarlegt einkenni
Breytingar í átt að verri einkennum segir Arnar ólíklegar þar sem það sé afar sjaldan veirum í hag að drepa hýsla sína, í þessu tilviki mannfólk, hraðar og betur.
„Sennilegast er að þær þróist í þá átt að smitast betur, og að alvarleiki einkenna dvíni þegar frá dregur.“
Arnar bendir að endingu á að erfitt sé að spá fyrir um þróun stofna í framtíðinni. Hinar fjórar kórónuveirurnar sem að jafnaði sýkja fólk valdi allar mildum einkennum en smitist frekar greiðlega.
„Því er líklegast að SARS-CoV-2 muni þróast í átt að vægari gerð sem smitast greiðar en núverandi afbrigði. Vísbendingar eru um að breska afbrigðið af veirunni smitist einmitt greiðar, og mögulega einnig annað afbrigði frá Suður-Afríku,“ segir Arnar.
„Aukin fjölgunargeta eða smithæfni eru nógu alvarleg einkenni í sjálfu sér, því þótt dánartíðni sé svipuð ná slíkar gerðir að sýkja fleiri einstaklinga og mögulega smjúga í gegnum sóttvarnir sem virkuðu á upprunalega afbrigðið. Óskandi er að mannkyninu takist að útrýma veirunni sem veldur COVID-19 með samhæfðu bólusetningarátaki um veröld alla eins og gert var fyrir veiruna sem olli stóru bólu.“