Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar þingsins segir nauðsynlegt að þingmenn leggi allt í sölurnar til þess að tryggja öryggi landsmanna síðustu daga Trump í embætti. Sjálf vonist hún til þess að forsetinn segi sjálfur af sér en geri hann það ekki sjái hún ekki annað í stöðunni en að koma af stað ákæruferli.
Á fimmtudag biðlaði hún til Mike Pence, fráfarandi varaforseta, að grípa til aðgerða og hvatti ríkisstjórnina til þess að svipta Trump völdum.
Stefnt er að því að kynna tillöguna á mánudag og er Trump gefið að sök að hafa hvatt til óeirða í þinginu. Fimm létust þegar stuðningsmenn Trump réðust inn í þinghúsið, þar af ein kona sem var skotin til bana af lögreglu.
Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, tekur við embætti þann 20. janúar næstkomandi. Hann sagði undir þinginu komið að ákveða næstu skref, en honum hefði lengi fundist forsetinn óhæfur til þess að gegna embættinu.
Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins hafa 160 þingmenn Demókrata í fulltrúadeildinni skrifað undir tillöguna en flokkurinn er alls með 235 þingmenn í fulltrúadeildinni, og þar af leiðandi meirihluta. Undirbúningur að tillögunni hófst strax á miðvikudag þegar þingmenn voru færðir á öruggan stað eftir að stuðningsmenn forsetans réðust inn í þinghúsið.