Bretar urðu fyrstir til að hefja bólusetningu gegn Covid-19 með vottuðu bóluefni en þrátt fyrir það er faraldurinn í fullum gangi í landinu og gagnrýnisraddir hafa heyrst um að illa gangi að koma bóluefni út.
BBC segir frá því að bresk stjórnvöld hafi uppi áform um að vera búin að bólusetja 15 milljónir manna fyrir miðjan næsta mánuð en þar er um að ræða alla yfir sjötugu, heilbrigðisstarfsmenn og fólk í áhættuhópum. Í dag hafa aðeins um tvær milljónir Breta verið bólusettir, um 200 þúsund á dag.
Breski heilbrigðisráðherrann Matt Hancock mun síðar í dag greina betur frá áætlum stjórnvalda þegar kemur að dreifingu bóluefnisins. Hefur hann sagt áætlunina gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að koma Bretlandi „út úr heimsfaraldrinum“.