Íslenski boltinn

Enn einn Íslendingurinn til Norrköping

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Finnur Tómas Pálmason er á förum til Svíþjóðar.
Finnur Tómas Pálmason er á förum til Svíþjóðar. vísir/hag

Finnur Tómas Pálmason er á leið til Norrköping í Svíþjóð. KR og Norrköping hafa náð saman en leikmaðurinn á enn eftir að semja við sænska félagið.

Fjölmargir Íslendingar hafa leikið með Norrköping og nú eru tveir Skagamenn á mála hjá félaginu; Oliver Stefánsson og Ísak Bergmann Jóhannesson sem sló í gegn í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og hefur verið orðaður við hin ýmsu stórlið í Evrópu.

Í samtali við Fótbolta.net staðfesti Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR, að félagið hefði samþykkt tilboð Norrköping í Finn. Hann ætti hins vegar enn eftir að semja um kaup og kjör við félagið.

Finnur skaust fram á sjónarsviðið þegar KR varð Íslandsmeistari 2019 og var þá valinn besti ungi leikmaður Pepsi Max-deildarinnar.

Miðvörðurinn hefur alls leikið 36 leiki í deild og bikar fyrir KR auk tólf leikja fyrir Þrótt en hann var lánsmaður hjá Laugardalsliðinu sumarið 2018.

Finnur hefur leikið þrjá leiki fyrir U-21 árs landslið Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×