Veitingastaðir mega þó ekki hafa opið lengur en til 22 á kvöldin og börum og skemmtistöðum er áfram gert að hafa lokað.
Tveggja metra reglan er enn í gildi og grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja hana, svo sem í almenningssamgöngum og verslunum.
Á meðal annarra breytinga er að íþróttaæfingar barna og fullorðinna verða heimilaðar með og án snertingar innan- og utandyra. Ekki mega vera fleiri en fimmtíu manns í sama rými. Þá verða íþróttakeppnir barna og fullorðinna heimilaðar án áhorfenda.
Skíðasvæðum er jafnframt heimilt að opna með takmörkunum á borð við tveggja metra reglu og grímuskyldu.
Ein breyting varðandi landamærin tekur gildi í dag þegar börnum fæddum 2005 eða síðar verður skylt að sæta sóttkví með foreldri eða forráðamanni við komuna til landsins.
Nánar um helstu breytingar á samkomutakmörkunum innanlands:
- Almennar fjöldatakmarkanir verða 20 manns.
- Verslanir: Reglur verða óbreyttar frá því sem nú er.
- Heilsu- og líkamsræktarstöðvar: Starfsemi verður heimil með ströngum skilyrðum. Fjöldi gesta má að hámarki vera helmingur þess sem kveðið er á um í starfsleyfi, eða helmingur þess sem búningsaðstaða gerir ráð fyrir ef gestafjölda er ekki getið í starfsleyfi. Einungis er leyfilegt að halda skipulagða hóptíma þar sem hámarksfjöldi í hverjum hópi eru 20 manns og gestir í hvern tíma skráðir. Búningsklefar skulu vera lokaðir. Börn fædd 2005 og síðar eru ekki talin með í gestafjölda. Sóttvarnalæknir mun setja fram ýtarlegar leiðbeiningar um sóttvarnir á heilsu- og líkamsræktarstöðvum.
- Íþróttaæfingar: Íþróttaæfingar barna og fullorðinna verða heimilar með og án snertingar innan- og utandyra. Ekki mega vera fleiri en 50 manns í rými.
- Íþróttakeppnir: Íþróttakeppnir barna og fullorðinna verða heimilar en án áhorfenda.
- Skíðasvæði: Skíðasvæðum verður heimilt að hafa opið með takmörkunum samkvæmt reglu 4 í útgefnum reglum skíðasvæðanna í landinu. Í skíðalyftum skal tryggt að þeir sem eru einir á ferð þurfi ekki að deila lyftustól með öðrum, halda skal tveggja metra nálægðarmörk og sömu reglur gilda um grímunotkun og annars staðar.
- Sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir: Á sviði mega vera allt að 50 manns á æfingum og sýningum. Andlitsgrímur skulu notaðar eins og kostur er og tveggja metra nálægðartakmörkun virt eftir föngum. Sitjandi gestir í sal mega vera allt að 100 fullorðnir og 100 börn fædd 2005 og síðar. Gestir skulu sitja í sætum sem skráð eru á nafn og fullorðnir eiga að bera grímu.
- Útfarir: Í útförum verður heimilt að hafa 100 manns viðstadda og teljast börn fædd árið 2005 eða síðar ekki með í þeim fjölda. Skylt verður að bera grímur. Fjöldi gesta í erfidrykkjum verður 20 manns í samræmi við almennar fjöldatakmarkanir (uppfært 11. janúar 2021).