Handbolti

Grænlendingar telja sig svikna: „Nú er þetta meira en hlægilegt“

Sindri Sverrisson skrifar
Minik Dahl Höegh hefur spilað lengi í dönsku úrvalsdeildinni en fær ekki að spila á HM í Egyptalandi.
Minik Dahl Höegh hefur spilað lengi í dönsku úrvalsdeildinni en fær ekki að spila á HM í Egyptalandi. Getty/Jan Christensen

Grænlendingar furða sig á því að þeim skuli enn vera haldið utan HM í handbolta í Egyptalandi, þrátt fyrir að Bandaríkin hafi þurft að hætta við þátttöku.

Þar sem að ekki tókst að halda keppni til að ákveða hvaða lið færi fyrir hönd Norður-Ameríku á HM leitaði handknattleikssamband álfunnar til alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, og bað það um að tilnefna þátttökuþjóð.

IHF valdi Bandaríkin í samræmi við reglugerð sína, á þeim forsendum meðal annars að Bandaríkin væru stórt og mikilvægt markaðssvæði og að Ólympíuleikarnir 2028 færu fram í Los Angeles. Þá hefðu Bandaríkin endað efst þeirra liða sem til greina komu á Ameríkuleikunum 2019.

Grænlendingar höfðu ekki beint gaman af þessari ákvörðun, eftir að hafa endað fyrir ofan Bandaríkjamenn á Ameríkumótinu í handbolta á hverju einasta móti síðustu 20 ár. Þeim var enn síður skemmt eftir að IHF bauð Sviss á HM þegar Bandaríkin urðu að hætta við mótið vegna kórónuveirusmita.

Eins langt frá anda íþróttanna og hugsast getur

„Þetta var hlægilegt mál áður en núna er þetta meira en hlægilegt,“ sagði Minik Dahl Höegh, fyrirliði grænlenska landsliðsins, við DR.

Ákvörðun IHF um að bjóða Sviss byggir þó á ákvörðun um varaþjóðir sem tekin var fyrir mótið. Varaþjóðirnar eru þjóðir þeirrar álfu sem ríkjandi heimsmeistarar, Danir, tilheyra, og voru næst því að komast inn á HM. Norður-Makedónía var þar efst á blaði, svo Sviss, og Holland undir stjórn Erlings Richardssonar er næst inn verði frekari forföll.

„Þetta er eins langt frá því að vera í anda íþróttanna eins og hugsast getur. Það kemur mér á óvart að enginn hjá IHF skuli hafa kjark til að hringja í okkur og gefa okkur útskýringar,“ sagði Höegh.


Tengdar fréttir

Erlingur ætti að pakka í tösku

Það gæti vel farið svo að Ísland muni eiga flesta þjálfara á HM í handbolta sem hefst í Egyptalandi í kvöld. Erlingur Richardsson gæti orðið sá fimmti sem þjálfari hollenska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×