Heimsmeistaramótið í handbolta er vissulega hafið og íslenska landsliðið spilaði sinn fyrsta leik í gærkvöldi. Á sama tíma berast fréttir af smituðum fjölmiðlamönnum, smituðum leikmönnum og smituðum starfsmönnum inn á hótelinu í Kaíró sem á að sjálfsögðu að vera innan búbblunnar.
Ole Erevik var einn allra besti markvörður Norðmanna í langan tíma en hann starfar nú sem handboltasérfræðingur hjá TV3.
Erevik er staddur á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi en honum leist ekkert á blikina eftir að upp komst um fjölda kórónuveirusmita innan búbblunnar.
Erevik setti eftirfarandi færslu inn á Twitter síðu sína í gærkvöldi.
Det er vel fort spikeren i kista for VM dette! Smitte blant media, spillere og ansatte på hotellet i Kairo. Slukk lyset og send folk hjem. https://t.co/7XMb4MI9bY
— Ole Erevik (@OleErevik) January 14, 2021
„Þetta er líklega naglinn í líkkistuna fyrir heimsmeistaramótið. Smit meðal fjölmiðlamanna, leikmanna og starfsmanna á hótelinu í Karíó. Slökkvið ljósin og sendið fólkið heim,“ skrifaði Ole Erevik.
Tékkar og Bandaríkjamenn hættu við þátttöku á heimsmeistaramótinu vegna smita leikmanna sinna og ellefu leikmenn Grænhöfðaeyja reyndust líka smitaðir sem þýðir að það er enn mikil óvissa er um þátttöku liðsins.
Síðan hafa verið níu smit inn í HM-búbblunni í Kaíró. Danski blaðamaðurinn Lars Bruun-Mortensen sagði frá smitum meðal starfsmanna hótelsins sem eru allt annað en góðar fréttir.
Alþjóðahandboltasambandið heldur því samt fram að smit starfsmannanna hafi uppgötvast áður en liðin komu inn á hótelið en kórónuveiran er lúmsk og erfið viðureignar.