Umfjöllun og viðtöl: Fram - ÍBV 26-25 | Fram hafði betur eftir æsispennandi lokamínútur

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Karen Knútsdóttir snéri aftur í dag og Fram vann.
Karen Knútsdóttir snéri aftur í dag og Fram vann. vísir/bára

Fram vann góðan sigur á ÍBV þegar liðin mættust í frestuðum leik í fjórðu umferð Olís-deildar kvenna í handbolta. Lokatölur urðu 26-25 í hörku spennandi leik.

Það var ekki að sjá að þetta hafi verið fyrsti leikurinn eftir langa pásu. Bæði lið mættu einbeitt til leiks og leikurinn spennandi frá fyrstu mínutu.

ÍBV skoruðu fyrstu tvö mörkin og voru með 1-2 marka forystu út allan fyrri hálfleikinn. Á köflum náðu Fram að jafna en ÍBV fóru inn í hálfleik einu marki yfir, 13-14.

Í seinni hálfleik mættu Framkonur töluvert ákveðnari til leiks. Varnarleikurinn þeirra var upp á 10 og virtist sem sóknarleikur ÍBV hafi ekki mætt til seinni hálfleiks, til að byrja með.

Þegar um 10 mínútur voru búnar af seinni hálfleik voru Fram komnar fjórum mörkum yfir. Þá fóru Eyjakonur að gefa í, en það dugði ekki til og liðin skyldu að 26-25.

Afhverju vann Fram leikinn?

Fram mættu mun ákveðnari til seinni hálfleiks. Þrátt fyrir að hafa spilað mjög vel í fyrri hálfleik vantaði aðeins upp á sem kom svo hjá þeim. Þær voru gríðarlega sterkar varnarlega og gerðu Eyjakonum erfitt fyrir í seinni hálfleik.

Hverjar stóðu upp úr?

Hjá Fram var það Ragnheiður Júlíusdóttir sem var gríðarlega öflug sóknarlega með 13 mörk. Á eftir henni voru það Steinunn Björnsdóttir og Lena Margrét Valdimarsdóttir, báðar með 4 mörk. Varnarleikurinn hjá Fram var í heildina frábær.

Hjá ÍBV var það Sunna Jónsdóttir með 7 mörk og Ásta Björt með 5 mörk. Marta Wawrzynkowska var með 12 bolta varða, 48% markvörslu.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur ÍBV í byrjun seinni hálfleiks er það sem varð þeim að falli í dag. Eins og þær voru öflugar í fyrri hálfleik var eins og þær hefðu ekki mætt til að byrja seinni hálfleikinn.

Hvað gerist næst?

Þar sem þessi leikur átti að fara fram í gær eru tveir dagar í næsta leik hjá báðum liðum. Fram sækir Stjörnuna heim þriðjudaginn 19. janúar kl 19:30.

ÍBV fá Hauka til sín einnig þriðjudaginn 19. janúar kl 18:00.

Stefán Arnarson: Ég er ánægður með sigurinn

Stefán Arnarson, þjálfari Fram var að vonum sáttur með frammistöðu sinna kvenna þegar sigruðu ÍBV í dag, 26-25 í Olís-deild kvenna í dag.

„Ég var ánægður með liðið heilt yfir. Í fyrri hálfleik voru við kannski ekki að spila nægilega góðan varnarleik. Við bættum úr því í seinni hálfleik. Sunna var okkur mjög erfið og átti frábæran leik,“ sagði Stefán að leiks lokum.

Fyrir leik talaði Stefán um að hann vissi ekki hvernig liðið myndi mæta eftir þessa löngu pásu sem hefur nú verið. „Heilt yfir miðað við að þetta er fyrsti leikur þá er ég mjög ánægður með tvö stigin.“

Ragnheiður Júlíusdóttir bar sóknarleik Fram og var með 13 mörk. Aðspurður hvort að það sé áhyggjuefni að aðrar séu ekki að taka af skarið hafði Stefán þetta að segja: „Við eigum margar og meira að segja leikmenn utan hóps sem geta tekið af skarið en sumar eins og Karen er að koma inn í sinn fyrsta leik. Mér fannst Lena spila mjög vel, sinn fyrsta leik í stóru hlutverki, tvítug. En ég er heilt ánægður með þetta og hef engar áhyggjur af þessu.

„Við stefnum á að vinna alla leiki og það verður gaman að sjá hvað gerist á móti Stjörnunni,“ sagði Stefán að lokum en Fram mætir Stjörnunni á þriðjudaginn 19. janúar kl 19:30 í TM-höllinni.

Sigurður: Ég hef verið ósáttur við dómara síðan ég var 4 ára en mér þykir vænt um þá

„Ég er brjálaður, það sýður á mér. Það eru mín fyrstu viðbrögð,“ sagði Sigurður Bragasson, þjálfari ÍBV, svekktur eftir eins marks tap á móti Fram í dag.

ÍBV byrjaði leikinn af krafti og spiluðu gríðarlega vel í fyrri hálfleik og leiddu með einu þegar flautað var til hálfleiks, 14-13. Hinsvegar í seinni hálfleik var sóknarleikur liðsins afleiddur og áttu þær erfitt með að finna svör við sterkri vörn hjá Fram.

„Byrjunin á seinni var bara ömurlegur. Mínir lykilleikmenn fóru inn í skelina og fóru að rembast, fóru að senda inn á línu og það vita það allir að Frammarar eru hraðaupphlaupslið og refsa og refsa. Það pirraði mig að við skutum ekki á markið og skutum hátt yfir. Það var lélegt.“

Sigurður var allt annað en sáttur með dómgæslu leiksins í seinni hálfleik ef marka má hvað heyrðist upp í blaðamannastúku. „Mér fannst fjórum sinnum þar sem þær fengu 50/50 sénsa, það getur vel verið að það hafi verið víti en þá dæmiru eins hinumegin. Ég hef verið ósáttur við dómara síðan ég var 4 ára en mér þykir vænt um þá.“

„Það er úrslitakeppnis bragur á þessu. Það er skipið núna, sund á morgun og leikur. Þetta er geggjað. Við verðum klár fyrir á Hauka á þriðjudaginn,“ sagði Sigurður að lokum, en ÍBV fá Hauka til sín á þriðjudaginn 19. janúar kl 18:00

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira