Skoðun

Af hverju sér ríkið ekki um X?

Kristófer Alex Guðmundsson skrifar

Af hverju sér ríkið ekki um mikilvæga þjónustu eins og matvöruverslanir, líkamsræktir eða banka? Það kann að hljóma vel að eitthvað sem við nánast öll þurfum að nota reglulega lúti stjórn okkar allra í gegnum lýðræðislegt kerfi og verði þess sé haldið í lágmarki.

En ef að ríkið myndi reka ofantalið eitt síns liðs myndi það hins vegar koma niður á vöruúrvali, þjónustu og verði. Til hvers ætti að selja fleiri en eina gerð af sultu, eða selja sultu yfir höfuð? Stjórn Matvöruverslunar ríkisins myndi seint bregðast við væntingum neytenda, enda engin ástæða til þess þegar neytendur hefðu ekkert val á verslunum. Myndirðu sætta þig við opnunartíma og biðraðir sýslumanns þegar þú ætlaðir að hoppa í búð? Lægsta verðið er síðan ekki tryggt með ríkiseinokun, enda er virk samkeppni sterkasta verkfærið til að tryggja valfrelsi neytenda og lágt vöruverð. Arðgreiðslur hafa til dæmis lítil áhrif á verð. Arður er greiddur þegar fyrirtæki skila hagnaði og þau gera það með því að höfða til neytenda – bjóða það sem fólk vill á verði sem það telur sanngjarnt.

Margt verður betra þegar fjöldi fólks keppist um að veita bestu þjónustuna og besta verðið. Hvatinn fyrir nýsköpun og tilraunastarfsemi er augljós ef þú hefur fjárhagslega hagsmuni af því að höfða til neytenda. Hann er takmarkaður ef það besta sem góður árangur færir þér er stöðuhækkun. Spurningin sem um ræðir skýtur oft upp kollinum þegar fréttir berast af arðgreiðslu eins aðila á tilteknum markaði. Spurningin fylgir þó yfirleitt ekki fréttum af taprekstri. Raunin er sú að með öllum rekstri fylgir áhætta og þegar hart árar myndi ríkisrekstur í mörgum atvinnugreinum hafa bein neikvæð áhrif á fjármögnun heilbrigðis- og menntakerfisins okkar. Það er ekki réttlætanlegt að ríkið taki slíka áhættu með pening almennings.

Ríkið ætti ekki að taka þátt í samkeppnisrekstri því þótt eitthvað sé nánast ómissandi hluti af samfélaginu þá þýðir það ekki að það verði betra eða sanngjarnara með einokun sem stýrð er af fastráðnum ríkisstarfsmönnum. Þvert á móti dregur þátttaka ríkissins á samkeppnismarkaði úr tækifærum annarra til að bjóða upp á þjónustu, sem dregur á sama tíma úr nýsköpun og framförum. Spurningin mætti oftar vera „er nauðsynlegt að ríkið sjái um X?“




Skoðun

Sjá meira


×