Fjölskyldan var flutt á sjúkrahús í Reykjavík með þyrlum Landhelgisgæslunnar rétt eftir hádegi í dag. Þau eru nú á bráðamóttökunni í Fossvogi og á Hringbraut. Parið, kona og karl, eru fædd 1989 og 1991. Ekki er vitað hve gamalt barnið er.
Viðbragðsaðilar sem kallaðir voru út voru nítján talsins og hafa þeir nú allir verið sendir í úrvinnslusóttkví, þar sem ekki liggur fyrir niðurstaða úr seinni skimun. Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri á Vestfjörðum segir í samtali við fréttastofu að viðbragðsaðilar muni fara í sýnatöku á morgun.
Þá mun þeim sem þurfa bjóðast að fara í sóttkví í farsóttarhúsi í Holti í Önundarfirði. Ekki fengust upplýsingar um líðan fólksins að svo stöddu.
Aðstæður á vettvangi voru erfiðar, mikil hálka var á veginum í Skötufirði og lágskýjað. Fjórir vegfarendur sem komu að slysinu náðu fólkinu í landi og veittu fyrstu hjálp á meðan beðið var eftir viðbragðsaðilum.