Innlent

Á annað þúsund íbúðir í byggingu á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Tómas Ellert reiknar með að íbúar Árborgar verði orðnir um 20 þúsund eftir 10 ár.
Tómas Ellert reiknar með að íbúar Árborgar verði orðnir um 20 þúsund eftir 10 ár. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Á annað þúsund íbúðir eru nú í byggingu eða verða byggðar á Selfossi á næstu mánuðum enda hefur krafturinn sjaldan eða aldrei verið eins mikill og nú í byggingaframkvæmdum á staðnum. Þá er mikil eftirvænting eftir nýjum miðbæ, sem er nú í byggingu á móts við Ölfusárbrú.

Þegar farið er um nýju hverfin á Selfossi þar sem er verið að byggja, t.d. í Björkustykki þá eru alls staðar gröfur að grafa fyrir nýjum grunnum, vörubílar á ferðinni og smiðir að störfum. Það er hreinlega allt að gerast eins og stundum er sagt.

„Já, með vorinu mun bætast verulega í og með sumrinu og haustinu þannig að þá verða væntanlega í byggingu um einhverjar þrjú til fjögur hundruð íbúðir þar sem sveitarfélagið er með. Þá eru einkaaðilar með annað eins í byggingu, það er t.d. íbúða hverfi við hliðina á því hverfi, sem sveitarfélagið er með. Þá mun sex hundruð íbúðahverfi rísa þar sem að nýja Selfossbrúin kemur og eitthvað annað eins í Dísastaðalandinu hér austast í bænum,“ segir Tómas Ellert Tómasson bæjarfulltrúi í meirihlutanum í Árborg.

Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi í meirihlutanum í Sveitarfélaginu Árborg.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og ekki má gleyma nýja miðbænum á Selfossi, sem er í hraðri uppbyggingu en fyrsti áfanginn verður opnaður í vor.

„Hann mun breyta mjög miklu. Það er náttúrulega verið að eyðileggja miðborg Reykjavíkur, þannig að við munum fá svakalegan flottan miðbæ hér á Selfossi, sem mun breyta því að hingað munu flykkjast til okkar gestir yfir sumartímann og vetrartímann og einnig munu flykkjast til okkar fleiri íbúar þannig að ég geri fastlega ráð fyrir því að hér á Selfossi verði íbúafjöldinn eftir 10 ár búin að tvöfaldast, þannig að við verðum orðin um 18 þúsund hér á Selfossi og væntanlega í kringum 20 þúsund í sveitarfélaginu öllu,“ bætir Tómas Ellert við.

Fyrsti áfangi nýja miðbæjarins verður opnaður á Selfossi með vorinu.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×