Viðskipti innlent

Skipstjórinn segir töluvert af loðnu út af Austfjörðum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Albert Sveinsson skipstjóri. Myndin var tekin um borð í Víkingi AK í Reykjavíkurhöfn á sjómannadaginn 2016.
Albert Sveinsson skipstjóri. Myndin var tekin um borð í Víkingi AK í Reykjavíkurhöfn á sjómannadaginn 2016. Stöð 2

Albert Sveinsson, skipstjóri Víkings AK-100, uppsjávarveiðiskips Brims, kveðst ekki í vafa um að mikið sé núna af loðnu á Austfjarðamiðum. Eftir að togarar urðu varir við loðnu þar á laugardag var Albert fenginn til að fara yfir svæðið á Víkingi.

„Það var töluvert af loðnu þarna, fínustu lóðningar. Þetta var bara eins og búast hefði mátt við á hefðbundinni veiðislóð miðað við árstíma“ sagði Albert í samtali við fréttastofu á þriðja tímanum í dag. Hann var þá staddur í Vopnafjarðarhöfn þar sem verið var að landa kolmunna úr skipinu.

Víkingur AK-100. Heimahöfn þess er á Akranesi.Vísir

Í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar kemur fram að „..þetta væri einhvert magn sem væri að sjá við kantinn frá Hvalbakshalla og allavega um 50 sjómílur þaðan í norður“.

Albert segir þá á Víkingi hafa siglt 45 til 50 sjómílur til að kanna svæðið í gærmorgun og allsstaðar séð loðnu.

„Það var syðst sem þykkustu og mestu lóðningarnar voru. Þetta lítur vel út. Það er enginn vafi í mínum huga að það er fullt af loðnu þarna,“ sagði Albert.

„Það er svo annað mál hvernig mælingin verður,“ bætti hann við.

Kort Hafrannsóknarstofnunar sýnir skipin sem send voru til að mæla loðnugönguna og staðsetningu þeirra um þrjúleytið í dag.Hafrannsóknastofnun

Eftir að löndun kolmunnans lýkur á Vopnafirði í kvöld er áformað að Víkingur sigli til Reykjavíkur þar sem Albert vonast til þörf verði á að taka loðnunótina um borð.

Staðsetningu leitarskipanna sem send voru til að mæla loðnuna má sjá hér á rauntíma.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×