Þar kemur fram að Guðmundur hafi hitt æðaskurðlækni í fyrsta sinn eftir aðgerð sem staðfesti að það væri gott blóðflæði í öllum fingrum og allt liti vel út.
Guðmundur var aðeins 26 ára þegar hann missti báða handleggi. Hann starfaði þá sem rafvirki og hafði verið að vinna við háspennulínu skammt frá Hafravatni þegar hann varð fyrir raflosti og slasaðist lífshættulega. Hann hefur verið opinskár um slysið í gegnum tíðina og hafði verið á biðlista eftir aðgerð í fimm ár.
Aðgerðin varð svo að veruleika á miðvikudag þegar hann undirgekkst ágræðslu á báðum handleggjum upp við axlir, en hún var söguleg í heimi læknavísindanna. Þá voru liðin 23 ár frá slysinu, nánast upp á dag, en slysið varð þann 12. janúar 1998.
Hann lýsti yfir þakklæti til íslensku þjóðarinnar eftir aðgerðina og sagði hana aldrei hafa orðið að veruleika ef ekki væri fyrir stuðning Íslendinga. Í kveðju sem hann birti svo á Facebook um helgina sagði hann aðgerðina hafa gengið vel.
„Eins og þið vitið þá er ég ekki handlangari lengur, ég er orðinn handhafi. Þetta gekk allt saman rosalega vel,“ segir Guðmundur Felix í kveðjunni.