Handbolti

Hættulegur leikur fyrir Íslendinga: „Hann er þeirra Óli Stef“

Sindri Sverrisson skrifar
Andy Schmid er rosalegur leikmaður sem valinn hefur verið bestur í efstu deild Þýskalands fimm sinnum.
Andy Schmid er rosalegur leikmaður sem valinn hefur verið bestur í efstu deild Þýskalands fimm sinnum. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

„Þessi leikur verður hættulegur fyrir Íslendinga. Ef allir eru heilir og frískir hjá Svisslendingum eru þeir til alls líklegir,“ segir Aðalsteinn Eyjólfsson sem þekkir afskaplega vel til mótherja Íslands á HM í handbolta í dag.

Ísland er komið í milliriðil á HM í Egyptalandi og fyrsti leikur þar er við Sviss, sem tapaði afar naumlega gegn Frakklandi á mánudaginn.

„Mér finnst svissneska liðið virkilega sterkt en þeir eru með svolítið smáþjóðareinkenni. Þeir tala sig frekar mikið niður, alveg öfugt við Íslendinga. En ef að maður telur upp þessa leikmenn sem þeir hafa, og ímyndar sér að þeir væru íslenska liðið, þá yrðu gerðar kröfur á það um árangur,“ segir Aðalsteinn.

Íslendingar þurfa meðal annars að kljást við snillinginn Andy Schmid sem Aðalsteinn lýsir sem Ólafi Stefánssyni Svisslendinga. Hér má sjá tilþrif hans í 25-24 tapinu gegn Frökkum, þegar hann rauf 900 marka múrinn með landsliði Sviss:

Aðalsteinn þjálfar besta lið Sviss, Kadetten Schaffhausen, og á sjö leikmenn í 19 manna hópi Svisslendinga sem þurftu að hafa snör handtök í síðustu viku. Sviss var kallað inn í stað Bandaríkjanna sem urðu að hætta við HM vegna kórónuveirusmita, og Sviss vann svo grannaslag sinn við Austurríki sem dugði til að komast í milliriðlakeppninni.

„Þeir eru með marga leikmenn sem eru eða hafa verið að spila í efstu deild Þýskalands. Þeir voru óheppnir að vinna ekki Frakkland og það skrifast bara á þeirra eigin klaufaskap,“ segir Aðalsteinn.

Vandræði með hægri skyttustöðuna

„Þeir eru í vandræðum með hægri skyttustöðuna en að öðru leyti vel skipaðir. Í hægra horninu er Cedrie Tynowski, sterkur leikmaður sem getur spilað bakvörð og er fjölhæfur. Í vinstra horninu eru þeir með Marvin Lier og Samuel Zehnder, sem eru snöggir og fínir hornamenn og gætu hæglega verið að spila á góðu stigi í bundesligunni. 

Í vinstri bakverði eru þeir með Lenny Rubin sem spilar í bundesligunni, með Wetzlar. Hann er svona klassísk skytta, með góðar hreyfingar inn á miðjuna, og hefur átt fína spretti en vantað stöðugleika. Með honum er Roman Sidorowicz sem var lengi í Melsungen skipti til baka í Pfadi fyrir þetta tímabil. Hann er hættulegur maður gegn manni og góður skotmaður í návígi,“ segir Aðalsteinn áður en talið berst að besta leikmanni Sviss.

Óhræddir við að spila með sjö í sókn og Schmid tekur ákvarðanirnar

Andy Schmid var valinn besti leikmaður bestu deildar heims, þeirrar þýsku, fimm tímabil í röð árin 2014-2018. Þessi 37 ára leikstjórnandi Rhein-Neckar Löwen er hjartað og sálin í liði Sviss:

„Andy Schmid þarf lítið að kynna en hann er þeirra Óli Stef. Algjör heimsklassaleikmaður. Svo lengi sem að hans krafta nýtur við getur liðið gert ýmislegt. Þeir spila mikið upp á hann. Ef að 6 á 6 gengur ekki hjá þeim í sókninni þá eru þeir fljótir að skipta í 7 á móti 6, svipað og Portúgalar hafa gert, og hann sér þá um að taka ákvarðanirnar,“ segir Aðalsteinn.

Línumaðurinn Alen Milosevic er burðarás í liði Sviss.EPA-EFE/URS FLUEELER

„Varamaðurinn fyrir Schmid er ungur strákur sem er hjá mér, Mehdi Romdhane, sem er snöggur og virkilega hæfileikaríkur, ekkert ólíkur Gísla Kristjáns. Hægra megin eru mestu vandræðin en þar spilar Nicolas Raemy sem er ekki nægilega mikil skytta,“ segir Aðalsteinn.

„Línumaðurinn Alen Milosevic er toppsóknarlínumaður og fyrirliði hjá Leipzig. Hann er virkilega góður og búinn að sýna það með Andy. Þeir náðu mjög vel saman gegn Austurríki og Frakklandi. Í markinu er svo Nikola Portner sem spilar með Chambery í Frakklandi og varð Evrópumeistari með Montpellier. Hann var lélegur í fyrsta leik en hefur farið upp á við og var frábær gegn Frökkunum. Svo eru þeir með Samuel Röthlisberger sem er aðalvarnarmaður Stuttgart og er hjartað í miðjublokkinni hjá þeim. Þetta eru leikmenn sem eru góðir og reyndir.

Það er helst breiddin sem að háir Sviss. Andy Schmid og Milosevic hafa spilað nánast hverja einustu mínútu hjá þeim. Svipað eins og við Íslendingar lentum í oft áður fyrr, að hafa oft verið búnir að brenna alla orkuna í lokin á milliriðlunum, þá gætu Svisslendingar fundið fyrir þessu og orðið bensínlausir,“ segir Aðalsteinn.

Ekkert landslið í Evrópu sem æfir eins mikið saman

Aðalsteinn segir það ekki koma að sök fyrir Sviss að hafa komið óvænt inn á mótið vegna forfalla tveggja landsliða:

„Það er ekkert lið í Evrópu sem að æfir jafnmikið saman og svissneska landsliðið. Ég er með 7-8 leikmenn í landsliðinu og þeir eru reglulega í svona þriggja daga æfingatörnum með landsliðinu. Það eru gerðar aukapásur í deildinni hérna til að landsliðið geti æft saman. Fyrir mig sem þjálfara toppliðsins þá kemur þetta sér mjög illa, en það er annað mál.

Þeir voru búnir að vera í æfingatörn á milli jóla og nýárs, og aftur eftir áramót, svo undirbúningurinn var bara fullkominn fyrir mótið. Íþróttalega séð var ekki hægt að hafa þetta mikið betra.“


Tengdar fréttir

„Trúnaðarbrestur hjá Tomasi Svensson“

Jóhann Gunnar Einarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson furða sig á ummælum Tomasar Svensson, markvarðaþjálfara íslenska handboltalandsliðsins, um meiðsli Arons Pálmarssonar sem er ekki með á HM í Egyptalandi.

Getur allt gerst í milliriðlinum

„Þetta er stórhættuleg þjóð að eiga við á þessum tímapunkti móts, að mæta svona agressívu og blóðheitu liði, en við skiluðum þessu í hús,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson sem átti fínan leik í marki Íslands í sigrinum á Marokkó í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×