Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum og lögreglunni á Norðurlandi eystra. Búist er við stífri norð- og norðaustanátt með snjókomu og éljum fram yfir helgi.
Ekki er talin hætta í byggð sem stendur en viðvörun hefur verið gefin út fyrir hesthúsahverfi í Ólafsfirði undir Ósbrekkufjalli. Í dag sáust talsvert stór snjóflóð úr Ósbrekkufjalli í Ólafsfirði og féll eitt þeirra fram í sjó, að sögn Veðurstofunnar.
Nokkuð stíf norðlæg átt með snjókomu hefur verið fyrir norðan frá því í gærmorgun og talsverð úrkoma mælst á annesjum Norðanlands.
Greint var frá því í gærkvöldi að veginum um Ólafsfjarðarmúla hafi verið lokað vegna snjóflóðs sem féll yfir veginn. Lögregla hvetur fólk sem hyggur á ferðalög í landshlutanum að fylgjast vel með færð á vegum og veðurspá næstu daga.
Fréttin hefur verið uppfærð.