Innlent

Pilturinn látinn laus í fyrradag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sérsveitarmenn aðstoðuðu lögreglu vegna árásarinnar í síðustu viku.
Sérsveitarmenn aðstoðuðu lögreglu vegna árásarinnar í síðustu viku. Vísir/vilhelm

Ungi maðurinn sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald vegna árásar í Borgarholtsskóla í síðustu viku var sleppt úr haldi í fyrradag. Úrskurður héraðsdóms um gæsluvarðhald var kærður til Landsréttar, sem sneri úrskurðinum við.

Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu í gær en Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu á höfuðborgarsvæðinu staðfestir úrskurð Landsréttar í samtali við Vísi. Enginn er því lengur í haldi vegna rannsóknarinnar, sem Margeir segir að miði nokkuð vel.

Sex voru flutt á slysadeild eftir árásina, sem gerð var þann 13. janúar síðastliðinn í Borgarholtsskóla. Komið hefur fram að gripið var til vopna við árásina; hafnaboltakylfu og hnífa. Mikill viðbúnaður lögreglu, sérsveitar og sjúkraflutningamanna var á staðnum og þá gengu myndbönd af árásinni manna á milli á samfélagsmiðlum.

Þrír piltar voru handteknir vegna árásarinnar. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir öllum þremur en dómari féllst aðeins á kröfu vegna eins þeirra. Hann var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald, sem renna átti út í dag, en var sleppt úr haldi í fyrradag, eins og áður segir.


Tengdar fréttir

Segir að ráðist hafi verið á son sinn og honum svo vikið úr skólanum

Móðir drengs sem ráðist var á í Borgarholtsskóla í gær segir að sonur sinn hafi sætt hótunum um mánaða skeið. Þær hafi byrjað eftir að hann stöðvaði árás annars drengs á unga stúlku. Hann hafi svo heyrt af því að til stæði að ráðast á sig með hnífi og kallað bróðir sinn til aðstoðar.

Gaf sig fram við lögreglu eftir árásina í Borgarholtsskóla

Þrír hafa verið handteknir í tengslum við árásina í Borgarholtsskóla í gær. Piltarnir eru á aldrinum sextán til nítján ára. Eins þeirra var leitað í allan gærdag en hann gaf sig sjálfur fram við lögreglu seint í gærkvöld, samkvæmt heimildum fréttastofu. Sá er vistaður í fangaklefa og verður yfirheyrður í dag en þeir sem eru undir lögaldri hafa verið vistaðir á viðeigandi stofnun og mál þeirra unnið í samstarfi við barnaverndaryfirvöld, að sögn lögreglu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×