Lyfjastofnun hefur útbúið nýja upplýsingasíðu á vef sínum um aukaverkanir í kjölfar bólusetningar. Þar kemur meðal annars fram við hverju megi búast eftir bólusetningu og í hvaða tilfellum skuli hafa samband við lækni vegna gruns um aukaverkun.
Á upplýsingasíðunni má sjá fjölda þeirra tilkynninga sem hafa borist en að sögn stofnunarinnar er mikilvægt að hafa í huga að fjöldi tilkynninga segi ekki til um tíðni raunverulegra aukaverkana eftir bólusetningu eða öryggi bóluefna.
„Slíkar tilkynningar eru notaðar til að fylgjast með öryggi lyfja eftir að notkun þeirra hefst og er það gert m.a. með því að meta hvort líkur séu á því að orsakasamband sé milli lyfjanotkunar og þess tilviks sem tilkynnt er. Þannig er ekki víst að tilkynningarnar endurspegli raunverulegar aukaverkanir af bóluefnunum en það er metið í hverju tilfelli fyrir sig.“
Hægt að reikna með vægum aukaverkunum
Að sögn Lyfjastofnunar má búast við vægum og skammvinnum aukaverkunum sem yfirleitt eru með öllu skaðlausar fyrstu 1-2 dagana eftir bólusetningu.
„Þetta geta t.d. verið óþægindi á stungustað, þreyta, höfuðverkur, verkir í vöðvum og liðum, kuldahrollur, hiti og ógleði. Þetta eru merki um að líkaminn sé að mynda ónæmissvar og að bóluefnið hafi tilætluð áhrif. Ekki þarf að hafa samband við lækni ef þessi einkenni koma fram.“
Rúna Hauksdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, sagði í Reykjavík síðdegis á mánudag að hugsanleg aukaverkun teljist alvarleg ef það þurfi einhvers konar innlögn eða inngrip á heilbrigðisstofnun. Þá sagði hún að ekki væri hægt að bera saman tilkynningar um aukaverkanir af völdum Moderna-bóluefnisins og Pfizer/BioNTech.
„Hafa ber í huga að þarna er verið að bólusetja alveg ólíka hópa. Með Moderna bóluefninu var verið að bólusetja tiltölulega ungt fólk - framlínustarfsmenn. Í fyrsta skammti af Pfizer-bóluefninu var verið að bólusetja okkar elsta og hrumasta fólk. Það er ekki hægt að bera þetta saman,“ sagði Rúna.