Innlent

Telja að skotið hafi verið á skrifstofur Samfylkingarinnar

Hólmfríður Gísladóttir og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Svona var aðkoman á skrifstofu Samfylkingarinnar í morgun.
Svona var aðkoman á skrifstofu Samfylkingarinnar í morgun. Aðsend

Starfsfólk skrifstofu Samfylkingarinnar gerði lögregu viðvart í morgun þegar það mætti til vinnu og sá göt á gluggarúðum húsnæðisins við Sóltún 26, sem virðast vera eftir byssukúlur. Tæknideild lögreglu rannsakar nú málið.

Skrifstofur Samfylkingarinnar eru á jarðhæð og samkvæmt RÚV sem fyrst greindi frá var göt að finna á að minnsta kosti sex rúðum. Starfsemi skrifstofunnar fer nú fram annars staðar.

Tómas Guðjónsson, upplýsingafulltrúi þingflokksins, var staddur á Alþingi og vísaði á Karen Kjartansdóttur framkvæmdastjóra flokksins. Tómas sagði málið tekið mjög alvarlega.

Skrifstofur Samfylkingarinnar.Vísir/Vilhelm

„Það var ekki geðslegt að koma að þessu svona í morgun,“ segir Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, í samtali við fréttastofu. Sex rúður hafi verið brotnar og talið sé að skotið hafi verið á rúðurnar.

Lögregla hafi málið til rannsóknar.

Jóhann Karl Þórisson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu,  segir í samtali við fréttastofu að von sé á tilkynningu frá lögreglu vegna málsins.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×