Yfirvöld í Noregi skelltu í dag í lás í Nordre Follo, úthverfi Oslóar. Tveir íbúar létust eftir að hafa smitast að hinu breska afbrigði kórónuveirunnar og þá hefur afbrigðið einnig greinst á leikskóla á svæðinu. Íbúum er nú ráðlagt að halda sig alfarið innan sveitarfélagsins.
Svipuð staða er í Portúgal þar sem öllum skólum var lokað í dag og öllu flugi til og frá Bretlandi verður hætt á morgun vegna breska afbrigðisins. Hollenska þingið samþykkti í gærkvöldi útgöngubann um kvöld og nætur.
Þúsund látin á einum degi
Í Þýskalandi heldur fjöldi látinna áfram að aukast jafnvel þótt það hafi hægst á útbreiðslunni. Rúm þrjátíu þúsund hafa látist af völdum veirunnar frá upphafi desembermánaðar.
„Alls hafa nú 50.642 látist af völdum Covid-19 frá upphafi faraldursins. Þetta eru hinar opinberu tölur og þær hryggja mig mikið,“ sagði Lothar Wieler, stjórnandi Robert Koch smitsjúkdómastofnunarinnar.
Hlutfallslega fáir Þjóðverjar létust í fyrstu bylgju veirunnar en sömu sögu er ekki að segja nú. Angela Merkel kanslari segir bráðnauðsynlegt að hindra útbreiðslu breska afbrigðisins.
„Við erum að horfa upp á afar vondar andlátstölur. Þetta er hrikalegt. Í dag dóu fleiri en þúsund. Þetta eru ekki bara tölur. Við erum að tala um fólk sem lést í einsemd. Fjölskyldur þessa fólks eru í sárum. Um þetta þurfum við að vera meðvituð,“ sagði kanslarinn.