Innlent

Fjöldi manns kærður fyrir brot á sótt­varna­lögum vegna dans­leiks í mið­bænum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögregla sleit samkomunni og vísaði fólkinu út.
Lögregla sleit samkomunni og vísaði fólkinu út. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi tilkynning um dansleik í húsnæði við hlið veitingastaðar í miðbæ Reykjavíkur.

Í dagbók lögreglu segir að gestir á dansleiknum hafi farið inn á veitingastaðinn við hliðina á og borið þaðan áfengi og aðrar veitingar yfir á ballið.

Um það bil 25 aðilar voru kærðir fyrir brot á sóttvarnalögum en tuttugu manna samkomubann er nú í gildi.

Auk þess voru veitingastaðurinn og ábyrgðarmaður hans kærðir fyrir brot á áfengislögum, það er að áfengi hafi verið borið út af veitingastað. Samkomunni var slitið og fólkinu vísað út.

Laust eftir klukkan hálffimm í morgun var síðan tilkynnt um eignaspjöll hjá verslun í austurbænum. Þar hafði hurð verið spennt upp baka til í húsinu.

Í dagbók lögreglu segir að tengiliður hafi farið á vettvang og taldi hann að engu hefði verið stolið.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×