Erlent

Loka landamærum Noregs næstum alveg

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. EPA

Hörðustu takmarkanir á landamærum Noregs síðan í mars taka gildi í landinu á miðnætti annað kvöld, 29. janúar. Landið verður í reynd lokað fyrir öllum sem ekki eru íbúar. Þetta tilkynnti Erna Solbergs forsætisráðherra Noregs á blaðamannafundi nú síðdegis.

„Í rauninni verða landamærin lokuð öllum sem ekki búa í Noregi,“ sagði Solberg fundinum. Þetta þýði til að mynda að farandverkamenn munu margir ekki komast inn í landið.

Undanþágur verða þó veittar fólki sem getur sýnt fram á nauðsyn inngöngu sinnar í landið. Þá fá ákveðnar starfsstéttir einnig undanþágu; heilbrigðisstarfsfólk og fólk sem starfar við vöru- og fólksflutninga, auk þeirra sem ferðast til að vera með börnum.

Solberg sagði meðal annars gripið til þessara hertu aðgerða vegna hins svokallaða breska afbrigðis veirunnar, sem greindist fyrst í Noregi fyrir jól og smitast mögulega greiðar en önnur afbrigði.

Þá kvað hún nýju reglurnar vissulega hamlandi – en nauðsynlegar, þrátt fyrir að nýgengi smita í Noregi hafi farið lækkandi síðustu daga. Reglurnar taka gildi á miðnætti annað kvöld, 29. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×