Í alþjóðlegri fréttatilkynningu sem Sony sendi frá sér í dag, er haft eftir Alexander Buhr að Eydís Evensen sé einstaklega efnilegur listamaður.
„Við erum svo spennt að kynna heiminn fyrir henni og að Brotin setji tóninn fyrir nýju útgáfuna okkar.“
Eydís segir nánar frá þessu ævintýri í helgarviðtali Vísis og birtist það klukkan sjö í fyrramálið hér á Lífinu.
Spennt og þakklát
Píanóleikarinn og tónskáldið Eydís er nú orðin andlit alþjóðlegrar herferðar útgáfufyrirtækisins sem sett var af stað í dag. Lagið Brotin er píanóverk eftir Eydísi sjálfa og skapaði hún einnig myndbandið við lagið ásamt ljósmyndaranum Önnu Maggý. Lagið er fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu Eydísar, sem nefnist Bylur. Platan var tekin upp með Valgeiri Sigurðssyni í Greenhouse Studios í Reykjavík.
Eydís er frá Blönduósi en hefur búið erlendis síðustu ár og flutti aftur heim til Íslands á síðasta ári. Hún fékk að vita þessar gleðifréttir frá Sony í ágúst á síðasta ári en hefur þurft að halda því leyndu síðustu mánuði, meira að segja frá sínum nánustu.
„Ég er ótrúlega spennt og þakklát fyrir tækifærið til að gefa út mína fyrstu plötu hjá útgáfunni og fyrir að vinna með svona frábæru alþjóðlegu teymi,“
segir Eydís um samninginn. Myndbandið við Brotin má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Ískalt í glerkassa í íslenska frostinu
Eydís og Anna Maggý vildu með myndbandinu sýna tilfinningar verksins á sjónrænan hátt. Einangrunin, yfirþyrmandi tilfinningar og það að vera brotin er táknað með glerkassa sem fyllist af reyk í myndbandinu.
„Það var óraunverulegt að taka upp þetta myndband á kaldasta, dimmasta og erfiðasta tíma íslenska vetrarins,“ er haft eftir Önnu Maggý í tilkynningu Sony. Upptökur á myndbandinu við Brotin fóru fram víða á Suðurlandi en nánar má lesa um myndbandið í helgarviðtalinu við Eydísi sem birtist hér á Vísi í fyrramálið.
Í fréttatilkynningu Sony kemur fram að lagið Brotin gefi smá innsýn í tónlistarheim Eydísar og sýni hennar hæfileika og persónuleika vel. Lagið sýnir viðkvæmni og er einstaklega tilfinningaríkt. Nick Knowles umboðsmaður Eydísar segist spenntur fyrir því að hefja þetta ferðalag með magnaða teyminu hjá XXIM Records og Sony til þess að dreifa tónlist Eydísar um allan heim.