Sóttvarnalæknir segir að hann og Kári Stefánsson hafi átt nokkra fundi með lyfjafyrirtækinu Pfizer um að Íslendingar þátt í bóluefnarannsókn um hvernig hjarðónæmi myndi nást hér á landi.
„Við erum að ræða við Pfizer og þeir hafa tekið mjög jákvætt í þessa hugmynd okkar og séð alls konar rannsóknarmöguleika sem við höfum bent á,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, í samtali við fréttastofu.
„Ef þetta á að gerast þá þurfum við að undirbúa þetta það tekur smá tíma þannig að við þurfum að fara að fá niðurstöðu í þetta mál,“ segir Þórólfur.
Svörin ættu að berast fljótlega.
„Ég vona eftir svörum fljótlega og vona að það verði núna í vikunni allavega,“ segir hann.
Engin greindist innanlands með kórónuveiruna í gær en ellefu á landamærum. Síðustu viku hafa tíu greinst innanlands með veiruna og voru allir í sóttkví. Þórólfur skilar nýjum sóttvarnatillögum á næstu dögum.
„Þetta er til skoðunar en eins og heilbrigðisráðherra sagði um helgina þá er alveg eðlilegt að skoða hvort það sé ekki óhætt að koma með einhverjar tilslakanir áður en reglugerði rennur út og við erum að skoða það núna,“ segir Þórólfur.