Innlent

Grunaður byssumaður losnar úr varðhaldi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skotið var á bíl borgastjóra í síðasta mánuði.
Skotið var á bíl borgastjóra í síðasta mánuði. Vísir/Samsett

Karlmaður á sextugsaldri sem grunaður er um að hafa skotið með riffli á fjölskyldubíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra losnar úr gæsluvarðhaldi klukkan fjögur í dag. Héraðssaksóknari taldi ekki grundvöll til að krefjast áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir manninum.

Karlmaðurinn, sem er fyrrverandi lögreglumaður og með dóm fyrir kynferðisbrot á bakinu, var úrskurðaður í þriggja daga gæsluvarðhald síðastliðinn föstudag sem var svo framlengt á mánudag. Var það framlengt á þeim forsendum að hann teldist hættulegur.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir í samtali við Vísi að karlmaðurinn hafi áfram stöðu grunaðs í málinu. Gæsluvarðhald sé þó íþyngjandi úrræði sem uppfylla þurfi viss skilyrði. Þau hafi ekki verið talin vera fyrir hendi.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir rannsókn málsins miða mjög vel.Vísir/Vilhelm

Tveir karlmenn voru upphaflega handteknir vegna málsins. Annar þeirra losnar úr varðhaldi í dag en hinn er ekki talinn tengjast málinu að sögn Kolbrúnar. Hún segir rannsókn málsins miða mjög vel.

Karlmaðurinn hlaut árið 2003 átján mánaða dóm fyrir kynferðisbrot gegn þremur ungum stúlkum. Hann lauk afplánun árið 2005 en árið 2009 sótti hann um uppreist æru, sem hann fékk árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×