Skipunin gerir Becquart að einni valdamestu konunni innan kaþólsku kirkjunnar en hún mun nú hafa tækifæri til að hafa áhrif á lykilákvarðanir innan Páfagarðs.
Formaður biskuparáðsins, Mario Grech, sagði í samtali við Vatican News að „dyrnar hefðu verið opnaðar“ fyrir þann möguleika að fleiri konur fengju atkvæðarétt innan ráðsins.
„Á síðustu biskupaþingum hefur fjöldi nefndarmanna lagt áherslu á nauðsyn þess að kirkjan öll íhugi stöðu og hlutverk kvenna innan kirkjunnar,“ sagði Grech.
Jafnvel páfinn hefði nokkrum sinnum ítrekað mikilvægi þess að konur tækju þátt í ákvarðanatöku innan kirkjunnar. Þegar hefði átt sér stað aukning í aðkomu kvenna sem sérfræðinga.
Grech sagði Becquart nú eiga möguleika á því að greiða atkvæði og framtíðin myndi leiða í ljós hvaða önnur skref yrðu tekin í átt að aukinni þátttöku kvenna.