Íslandsmótið átti reyndar einnig að hefjast 22. apríl í fyrra en hófst ekki fyrr en í júní vegna kórónuveirufaraldursins. Mótið hefur langoftast hafist í maí en met var sett vorið 2019 þegar fyrsti leikur var 26. apríl.
Í Pepsi Max-deild karla er upphafsleikurinn á milli Íslandsmeistara Vals og ÍA á Hlíðarenda. Þrír leikir fara fram 23. apríl, þar sem nýliðar Keflavíkur og Leiknis verða á ferðinni og mæta Stjörnunni og Víkingi, og tveir laugardaginn 24. apríl, meðal annars stórleikur Breiðabliks og KR.
Áætlað er að lokaumferð deildarinnar fari fram 25. september.
Tímamótaleikur á Sauðárkróki
Í Pepsi Max-deild kvenna fer fyrsta umferð sumarsins fram dagana 4. og 5. maí. Íslandsmeistarar Breiðabliks taka á móti Fylki miðvikudaginn 5. maí í fyrsta leik sínum undir stjórn Vilhjálms Kára Haraldssonar.
Þá verður sögulegur leikur á Sauðárkróki þar sem Tindastóll spilar sinn fyrsta leik frá upphafi í efstu deild í fótbolta, gegn Þrótti. Hinir nýliðarnir, Keflvíkingar, taka á móti Selfossi.
Keppni í Pepsi Max-deild kvenna á að ljúka 12. september samkvæmt áætlun.
Þá hafa einnig verið birtar á vef KSÍ fyrstu umferðirnar í Mjólkurbikar karla og kvenna, þar sem lið úr efstu deildum sitja hjá, og drög að leikjadagskrá í öðrum deildum.