Pakistanski miðillinn Dawn greinir frá stöðu leitarinnar á vef sínum í dag. Ekkert hefur spurst til Johns Snorra og félaga hans, Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr, í rúma fimm sólarhringa. Ekki var unnt að leita að þremenningunum í gær og fyrradag vegna veðurs en nú er útlit fyrir að veðurgluggi hafi opnast.
Dawn hefur eftir tilkynningu frá samskiptadeild pakistanska hersins að stefnt sé að því að C-130 flugvél pakistanska hersins verði send til leitarinnar í dag. Flugvélin er sögð komast hærra en þyrlurnar sem notaðar hafa verið við leit fram að þessu. Flugvélin verði útbúin hitamyndavélum.
Þá séu fjórir göngumenn vanir háfjallaklifri tilbúnir að leggja af stað upp fjallið ef myndir úr hitamyndavélum varpi ljósi á staðsetningu Johns Snorra og félaga. Tveir göngumannanna, Sadiq Sadpara og Ali Muhammad Sadpara, hafi þegar lokið hæðaraðlögun og geti farið tafarlaust upp fyrir grunnbúðir ef nauðsyn krefur.
Sextíu dagar til leitar
Raja Nasir Ali Khan, ferðamálaráðherra á svæðinu, sagði á Twitter í gær að stjórnvöld hefðu ákveðið á fundi í gær að gefa sér sextíu daga til leitarstarfs á K2. Þá verði aðeins lagt í björgunaraðgerðir upp fjallið þegar nákvæm staðsetning þremenninganna liggi fyrir.
...Duration of search activity is likely to be extended up to 60 days. Embassies of both foreign nationals may also be taken on board regarding search activities their assistance in form of international rescue climbers.#k2winterexpedition2021#Alisadapara #JohnSnorri #JPMohr
— Raja Nasir Ali Khan (@RNAKOfficial) February 10, 2021
Stjórnvöld í Pakistan bönnuðu í gær ferðir upp á K2 út vetrartímabilið. Allir göngumenn sem þá voru staddir í búðum á fjallinu héldu í kjölfarið heim.